Starfsskyldur - áminning

Almennt um starfsskyldur

Starfssambandi fylgja gagnkvæmar skyldur fyrir báða aðila, þ.e. starfsmann og hlutaðeigandi stofnun. Meginskylda stofnunar er að greiða starfsmanni laun. Meginskylda starfsmanns er að mæta til vinnu og sinna starfi sínu.

Rétturinn til að stýra og stjórna vinnunni er hjá stofnun, þ.e. forstöðumanni og eftir atvikum næstu stjórnendum. Stjórnunarrétturinn er óskrifuð grundvallarregla sem leiðir af eðli starfssambandins. Regla þess gildir jafnt á opinberum sem almennum vinnumarkaði. Frá þessari reglu eru ýmsar undantekningar samkvæmt ákvæðum laga og samninga.

Almenn ákvæði um starfsskyldur ríkisstarfsmanna, jafnt embættismanna sem annarra starfsmanna, er að finna í IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Auk almennra starfsskyldna starfsmannalaga kunna að hvíla á starfsmanni sérstakar starfsskyldur samkvæmt sérákvæðum laga um hlutaðeigandi starfsstétt eða stofnun. Þar að auki gilda yfirleitt einhverjar reglur á vinnustað um framkvæmd starfsins sem fela í sér útfærslu á starfsskyldum fyrir hlutaðeigandi starfsmenn. Þá gera almennar réttarreglur sem gilda í stjórnsýslunni ákveðnar kröfur til háttsemi ríkisstarfsmanna. Hér er einkum átt við stjórnsýslulög, upplýsingalög og ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Til glöggvunar hefur verið tekin saman skrá yfir helstu meginreglur þeirra laga sem snerta kröfur til háttsemi ríkisstarfsmanna, þar með talið starfsmannalaga. Yfirskrift skrárinnar er Kröfur til háttsemi ríkisstarfsmanna.

Þá hafa einnig verið teknar saman í dreifibréfi almennar leiðbeiningar um þau viðmið sem ríkisstarfsmönnum ber daglega að gæta í störfum sínum. Dreifibréf 1/2006 - Viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna.

Almennar starfsskyldur

Í IV. kafla starfsmannalaga er kveðið á um almennar starfsskyldur. Ákvæðin gilda um alla ríkisstarfsmenn, embættismenn sem aðra starfsmenn. Þó ber að hafa í huga að við mat á því hvort tiltekin háttsemi feli í sér brot á ákvæðunum, er eftir atvikum rétt að líta til eðli starfsins sem í hlut á. Þetta á einkum við ákvæði 14. gr. og 15. gr. laganna.

Starfsskyldur skv. IV. kafla starfsmannalaga eru listaðar hér að neðan. Þar er hugtakið starfsmaður notað í rýmri merkingu þess orðs og merkir bæði embættismann og almennan ríkisstarfsmann.

Vinnuskyldan, þ.e. skylda starfsmanns til að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Sjá 1. mgr. 14. gr. stml. (1. og 2. málsliður).

Vammleysisskyldan, þ.e. skylda starfsmanns til að forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein sem hann vinnur við. Sjá 1. mgr. 14. gr. stml. (3. málsliður).

Leiðbeiningarskyldan, þ.e. skylda starfsmanns til að veita þeim sem til hans leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, þar á meðal benda þeim á, ef svo ber undir, hvert þeir skuli leita með erindi sín. Sjá 2. mgr. 14. gr. stml.

Hlýðniskyldan, þ.e. skylda starfsmanns til að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt. Sjá 15. gr. stml.

Mætingar- og viðveruskylda, þ.e. skylda starfsmanns til að koma stundvíslega til starfa, hvort heldur er að morgni eða eftir hlé. Heimilt er að setja upp tímaskráningarkerfi til að fylgjast með því hvenær starfsmenn mæta til vinnu. Sjá 1. mgr. 16. gr. stml.

Skipulag vinnutíma. Forstöðumaður ákveður vinnutíma starfsmanna að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa. Starfsmanni er skylt að hlíta ákvörðun forstöðumanns í þessum efnum. Sjá 1. mgr. 17. gr. stml.

Yfirvinnuskylda, þ.e. skylda starfsmanns til að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma. Sjá 2. mgr. 17. gr. stml.

Þagnarskylda, þ.e. skylda starfsmanns til að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Sjá 18. gr. stml.

Breytingar á störfum og verksviði. Starfsmanni er skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga enda skýri hann ráðherra eða forstöðumanni frá því innnan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum. Sjá 19. gr. stml. og dreifibréf nr. 1/2004.

Skyldan til að upplýsa um fyrirhugað aukastarf. Áður en starfsmaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar, ber honum að skýra hlutaðeigandi stjórnvaldi frá því. Innan tveggja vikna skal starfsmanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans og honum bannað að hafa hana með höndum. Bera má slíkt bann undir hlutaðeigandi ráðherra. Ef síðar er leitt í ljós að starfsemin megi ekki saman fara starfi hans í þjónustu ríkisins, er rétt að banna starfsmanni hana. Sjá 20. gr. stml.

Ábyrgðar- og trúnaðarskyldur (einnig kallaðar hollustu- og trúnaðarskyldur), þ.e. skylda starfsmanns til að taka tillit til hagsmuna stofnunar í starfi og utan starfs. Undir þessar skyldur fellur einnig skylda starfsmanns til að sinna störfum sínum með því að taka virkan þátt í að leysa þau verkefni, áætlanir og markmið sem sett hafa verið. Skyldur þessar byggja á ákvæðum IV. kafla starfsmannalaga í heild sinni.

Sérstakar skyldur forstöðumanns

Auk þeirra almennu starfsskyldna sem kveðið er á um í IV. kafla starfsmannalaga hvíla á forstöðumanni sérstakar starfsskyldur samkvæmt 38. gr. laganna. Jafnframt er kveðið á um sérstakar skyldur forstöðumanns í 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og reglugerð nr. 116/2001, um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta.

Segja má að hinar sérstöku starfsskyldur forstöðumanns samkvæmt 38. gr. stml. og 49. gr. laga um fjárreiður ríkisins séu tvíþættar. Annars vegar ber forstöðumaður ábyrgð á því að stofnun sú er hann stýrir, starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Hins vegar ber hann rekstrar- og fjárhagslega ábyrgð. Hann ber ábyrgð á því að reglum um meðferð fjármuna sé fylgt, að stofnun sé rekin innan ramma fjárlaga og að nýting fjármuna sé hagkvæm. Sjá nánar Framkvæmd fjárlaga - handbók fjármálaráðuneytis.

Til viðbótar ofangreindu kunna að hvíla á forstöðumanni fleiri starfsskyldur samkvæmt sérákvæðum laga um hlutaðeigandi starfsstétt eða stofnun. Þá er rétt að árétta það sem kemur fram í 38. gr. stml. að ráðherra kann að hafa sett forstöðumanni sérstök fyrirmæli varðandi framkvæmd starfsins t.d. í tengslum við tiltekin mál eða í erindisbréfi og þar með lagt honum ákveðnar starfsskyldur á herðar.

Brot á starfsskyldum - áminning o.fl.

Hafi starfsmaður ekki náð fullnægjandi árangri í starfi eða brotið starfsskyldur sínar á annan hátt, er rétt að veita honum skriflega áminningu samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga, nema önnur og þyngri úrræði eigi við.

Samkvæmt orðanna hljóðan ber að áminna starfsmann hafi hann sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Sjá nánar 21. gr. stml.

Áður en endanleg ákvörðun um áminningu er tekin og starfsmanni veitt skrifleg áminning, ber að gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt, sbr. niðurlag 21. gr. stml. Til þess að starfsmaður fái örugglega notið andmælaréttar síns sem skyldi, er áríðandi að upplýsa hann um tilefni og ástæðu fyrirhugaðrar áminningar þannig að hann viti nákvæmlega um hvað málið snýst. Mælt er með því að þetta sé gert bréflega.

Tvö dreifibréf hafa verið gefin út um undirbúning skriflegrar áminningar, tilkynningar fyrirhugaðrar áminningar og áminningarbréfið sjálft. Dreifibréf nr. 3/2002 á við um almenna starfsmenn en dreifibréf nr. 4/2002 á við um embættismenn.

Starfsmaður á ekki rétt á launum fyrir þann tíma sem hann er frá vinnu án gildra ástæðna. Í slíkum tilvikum þegar um ólögmæta fjarvist frá vinnu að ræða, er heimilt að draga af starfsmanni laun allt tvöföldum þeim tíma sem hann var frá starfi. Sjá nánar um launafrádrátt í 2. mgr. 16. gr. stml.

Útgefið efni

Dreifibréf um áminningu

Dreifibréf um starfsskyldur

Spurt og svarað

Greinar úr fréttabréfi fyrir stjórnendur ríkisstofnana: