Vegna gagnrýni á framsetningu útgjalda til heilbrigðismála í fjármálaáætlun 2018-2022

2.5.2017

Undanfarna daga hafa forsvarsmenn Landspítalans gagnrýnt framsetningu útgjalda til heilbrigðismála í fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022 sem nú liggur fyrir Alþingi. Er því haldið fram að val á viðmiðunartölum við nágrannalönd sé óviðeigandi og ekki stuðst við tölur úr heilbrigðisskýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Þetta hafi í för með sér að verið sé að bera saman epli og appelsínur, umfang heilbrigðisútgjalda sé ekki rétt og að fjármálaáætlunin standi og falli með því að röng mælistika sé notuð. Þessar staðhæfingar spítalans eru rangar.

Í fjármálaætluninni er gerð grein fyrir samanburði á opinberum útgjöldum á Norðurlöndunum til sjö málaflokka samkvæmt opinberum tölum frá OECD fyrir árið 2015. Með þessu er leitast við að sýna með heildstæðri nálgun skiptingu útgjalda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu niður á málaflokka sem eru sambærilegir við önnur lönd. Ekki er unnt að veita svo heildstæðan samanburð með því að nýta samanburðartölur sem eru sérsniðnar til samanburðar á einstökum málaflokkum. Því er notaður sami staðall fyrir alla málaflokka og öll lönd.

Við samanburð heilbrigðisútgjalda milli landa er oft nýttur svokallaður SHA-staðall (e. System of Health Accounts) sem OECD notar í skýrslum sínum, Health at a Glance. Sá staðall er sérstaklega sniðinn að því að skilgreina þróun heildarútgjalda til heilbrigðismála, en hann er síður til þess fallinn að sýna umfang opinberrar þjónustu og mismunandi málaflokka. Töluleg framsetning í fjármálaáætluninni miðar að því að sýna umfang opinberrar þjónustu hér á landi í samanburði við hin Norðurlöndin en ekki til að bera sérstaklega saman heilbrigðisútgjöld milli landa. Tölurnar eru fengnar á vef OECD þar sem þær eru birtar samkvæmt SNA-staðli (e. System of National Account).

Raunar er það svo að á Norðurlöndum sýna ofangreindar tvær aðferðir svipaða niðurstöðu um opinber heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af VLF, með þeirri undantekningu að verulegur munur kemur fram varðandi heilbrigðisútgjöld í Svíþjóð. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að tölur um útgjöld sem Landspítalinn vísar til eru heildarútgjöld til heilbrigðismála, þ.e. að meðtöldum kaupum heimilanna á heilbrigðisþjónustu. Þær tölur eru ekki inni í umfjölluninni í fjármálaáætluninni enda var þar einungis verið að bera saman framlög hins opinbera til ýmissa málaflokka.

Þó að fram geti komið frávik milli ólíkra aðferða við flokkun og mælingu útgjalda breytir það engu um niðurstöðu þess samanburðar sem gerður var í fjármálaáætluninni: „Umfang opinberrar þjónustu er því almennt ekki minna en það sem tíðkast í nágrannalöndunum, þó áherslur kunni að vera ólíkar milli landa. Mjög erfitt er að bera saman gæði þjónustu og árangur og því er ekki hægt að fullyrða um hvort opinber þjónusta sé betri eða lakari en annars staðar. Sé opinber þjónusta lakari hér á landi en á öðrum Norðurlöndum og árangur lakari er skýringanna ekki að leita í lægri fjárframlögum“.

Fullyrðingar um að ofangreindur samanburður hafi haft áhrif á áætluð fjárframlög til heilbrigðismála og að áætlunin standi og falli með því að að röng mælistika sé notuð stenst ekki. Gögnin voru tekin saman til að varpa ljósi á mikilvægi þess að horfa í senn til umfangs útgjalda og þess árangurs sem samfélagið nýtur á grundvelli þeirra. Skipting útgjalda til málefnasviða í áætluninni byggir á stefnumótun, greiningu, markmiðasetningu og forgangsröðun stjórnvalda en ekki einstökum mælistikum.

Til baka Senda grein