Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Val á fyrirmyndastofnun ríkisins 2008

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 17. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í fjármálaráðuneytinu er hafinn undirbúningur að vali á ríkisstofnun til fyrirmyndar 2008.

Um er að ræða viðurkenningu til ríkisstofnunar sem skarað hefur fram úr og er til fyrirmyndar í starfi sínu. Þetta er í sjöunda sinn sem fjármálaráðherra veitir slíka viðurkenningu, en hún hefur verið veitt á tveggja ára fresti síðan 1996, er Kvennaskólinn í Reykjavík hlaut hana. Árið 1998 hlaut Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Reykjanesi síðan viðurkenninguna, árið 2000 Landgræðsla ríkisins, Orkustofnun árið 2002, ÁTVR árið 2004 og Umferðarstofa árið 2006.

Við mat á stofnunum verður fyrst og fremst horft til stjórnunar þeirra. Skoðað verður að hverju stefnt er í starfsemi stofnana, hvaða stjórnunaraðferðir eru hafðar til hliðsjónar í rekstri þeirra og hvernig stjórnendur og starfsmenn fylgja eftir áherslum þannig aðferðirnar beri árangur. Jafnframt eru skoðaðar aðferðir stofnana sem notaðar eru til frekari þróunar og bætts árangurs í síbreytilegu umhverfi.

Fjármálaráðherra hefur skipað sérstaka valnefnd til þess að fara yfir stöðu þeirra stofnana sem til greina koma og velja þá stofnun sem þykir skara fram úr og er til fyrirmyndar í starfi sínu. Ráðherrann mun svo veita umræddri stofnun viðurkenningu í vor.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum