Hoppa yfir valmynd
12. desember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruviðskiptin í nóvember 2007

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum voru fluttar inn vörur í nóvember fyrir um 33,5 milljarða á fob virði sem er lítilleg lækkun frá síðasta mánuði þegar innflutningurinn nam tæpum 35 milljörðum.

Þegar rýnt er í einstaka undirliði innflutningsins er helst að nefna að nokkur aukning hefur verið í innflutningi á eldsneyti í nóvember frá fyrra mánuði en þessi liður er jafnan nokkuð sveiflukenndur milli mánaða. Áfram er töluverður innflutningur í hálf-varanlegum neysluvörum (fatnaður, skór o.fl.) en heilt yfir er ekki mikið um breytingar á milli mánaða að þessu sinni og er helsta ástæðan fyrir minni innflutningi í nóvember sú að engin flugvél er flutt inn í mánuðinum.

Virði útfluttra vara í nóvember er samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands um 31 milljarður sem er nokkur hækkun frá fyrra mánuði þegar virði útfluttra vara var 28,3 milljarðar. Áfram er virði útfluttra sjávarafurða hátt en hækkunina á heildarútflutningi milli mánaða að þessu sinni má helst rekja til töluverðrar aukningar í útflutningi á áli.

Samkvæmt þessu er vöruskiptahallinn rúmlega 2,5 milljarður í nóvember og hefur hallinn dregist töluvert saman frá því hann náði hámarki um mitt síðastliðið ár. Má gera ráð fyrir því að þessi þróun haldi áfram á næsta ári samfara auknum útflutningi á áli.

Vöruskiptajöfnuður frá janúar 2004 til nóvember 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum