Hoppa yfir valmynd
11. desember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mismunandi áherslur norrænna velferðarkerfa

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Enda þótt Norðurlöndin eigi það sameiginlegt að þar eru öflug velferðarkerfi þá eru þau með ólíku sniði.

Þótt þau eigi það sammerkt að aðgengi að mennta- og heilbrigðisþjónustu sé gott eru kerfi tekjutilfærslna ólík. Þetta sést meðal annars ef litið er á samsetningu og uppruna tekna. Í nýlegri skýrslu NOSOSKO um félagslega velferð á Norðurlöndunum er meðal annars fjallað um tekjudreifingu.

Samsetning tekna og skatthlutfall hjá tekjulægsta fjórðungi hjóna árið 2004

Á myndinni, sem byggir á upplýsingum í skýrslunni og viðbótar útreikningum fjármálaráðuneytisins, er sýnd samsetning tekna árið 2004 hjá þeim fjórðungi hjóna sem hefur lægstar tekjur. Á hinum Norðurlöndunum fær þessi hópur stærri hluta tekna sinna sem millifærslu frá hinu opinbera en hér á landi. Um leið greiðir þessi hópur hærra hlutfall teknanna í skatta en hér á landi.

Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi fær tekjulægsti fjórðungur hjóna allt að 70% tekna sinna sem millifærslur en hér á landi nam þetta hlutfall innan við 30% árið 2004. Að einhverju leyti endurspeglar þetta að lífeyrissjóðir á hinum Norðurlöndunum eru að uppistöðu til opinberir gegnumstreymissjóðir en einnig er atvinnuleysi þar meira en hér á landi. Á Íslandi er þessi fjórðungur hjóna með um 70% tekna sinna af eigin aflafé. Tekjur frá lífeyrissjóðum telja með í tilfelli Íslands. Skattahlutfallið er lægst á Íslandi enda þótt það sé reiknað brúttó, þ.e. barna- og vaxtabætur eru reiknaðar sem millifærslutekjur.

Í Noregi eru hlutföllin nær því sem gerist hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Hæst er skatthlutfallið í Danmörku og þar hækkar það ekki tiltakanlega með tekjum, þótt það sé hæst í efsta fjórðungi. Það vekur einnig athygli í samanburði Norðurlandanna á þessu sviði, að alls staðar nema hér á landi fær fólk millifærslur frá hinu opinbera allt upp í tekjuefsta fjórðung hjóna.

Hér á landi eru þær nær algerlega bundnar við tekjulægsta fjórðunginn. Í Svíþjóð fær tekjuhæsti fjórðungurinn þannig 17% tekna sem millifærslur og hlutfallið er hvergi lægra en 7%. Hagrannsóknir OECD benda til orsakasamhengis á milli skatta- og bótakerfa annars vegar og þróunar atvinnuleysis og kaupmáttar hins vegar. Undanfarin tíu ár hefur atvinnuleysistigið verið helmingi lægra á Íslandi og kaupmáttaraukning helmingi meiri en í Svíþjóð og Danmörku.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum