Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samspil peningamála- og ríkisfjármálastefnu á Norðurlöndunum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Undanfarin ár hefur verið unnið að norrænu verkefni um samspil ríkisfjármála- og peningamálastjórnunar á Norðurlöndunum að frumkvæði Íslands.

Markmiðið var að lýsa þessum tveimur sviðum efnahagsstjórnunar og samspili þeirra og reyna að meta áhrif þeirra á efnahagsframvinduna. Helstu spurningar sem leitað hefur verið svara við eru eftirfarandi:

  • Hverjar voru ástæður breytinga á stjórnun?
  • Hver er hlutverkaskipting ríkisfjármálastjórnunar annars vegar og peningamálastjórnunar hins vegar við núverandi aðstæður?
  • Hvert er sambandið á milli stjórnunar með tilliti til stöðugleika eða kerfisbreytinga (strukturpolitik)?
  • Hvað er átt við með samspili peningamála- og ríkisfjármálastefnu ? samræming, blanda (policy mix) eða eitthvað annað?
  • Hver eru áhrif aðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum? Hvenær koma þau fram? Hvaða mælingar eru til?
  • Hvert er samspil sjálfvirkra sveiflujafnara og markmiða ríkisfjármála um jákvæða afkomu og útgjaldaþök?

Því samspili sem nú fer fram milli ríkisfjármála- og peningamálastefnu er best lýst sem óformlegu þar sem á báðum sviðum er verið að nota þau tæki sem í boði eru til að ná markmiðum, án samráðs. Nauðsynlegt er að stefnan og forsendurnar sem unnið er eftir séu aðgengileg og gegnsæ.

Opinber fjármál gegna mikilvægu hlutverki í efnahagslífinu með því að stuðla að auknum sjálfbærum hagvexti og með aðkomu að almennri hagstjórn. Varðandi það síðarnefnda benda nýlegar hagrannsóknir til þess að tekju- og útgjaldamargfaldarar séu nokkru minni en áður var talið. Stærðargráða áhrifanna er meðal annars háð opnun hagkerfisins, gengisstefnunni og trúverðugleika hagstjórnarinnar.

Seðlabankar gegna leiðandi hlutverki við að halda verðlagi stöðugu. Í dag fylgja margir seðlabankar skýrt mörkuðu verðbólgumarkmiði á grundvelli fljótandi gengis. Miðlunarferli peningamálastefnunnar lýsir því hvernig breyting á stýrivöxtum hefur áhrif á aðra vexti í hagkerfinu, á gengið og hvernig heildareftirspurnin hefur að lokum áhrif á verðbólgu. Tíminn sem það tekur fyrir áhrifin að fara um þessa farvegi er óviss en er talinn vera á bilinu eitt til tvö ár. Miðlunarfarvegirnir eru fyrst og fremst vaxta-, gengis- og útlánafarvegurinn.

Skýrsla um þetta verkefni, sem er að mestu á norðurlandamálum, er nú nær fullgerð og hefur verið sett á vef fjármálaráðuneytisins - Samspel mellan finans- och penningpolitik i Norden (PDF 1.12 MB). Henni fylgir greinargerð á ensku sem ber heitið ?Fiscal and Monetary Policy Interaction in Small Open Economies? og er eftir Torben Andersen og Steinar Holden. Ráðuneytið telur að þetta verk sé þarft innlegg í umræðu um þessi mál.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum