Hoppa yfir valmynd
12. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný könnun um stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækja

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nú liggja fyrir niðurstöður nýrrar könnunar Capacent Gallup um stöðu og framtíðarhorfur 400 stærstu fyrirtækja á Íslandi. Stuðst er við heildarlaunagreiðslur þegar stærstu fyrirtækin eru valin.

Könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Capacent Gallup. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 24. ágúst til 16. september 2007 og svarhlutfall var 62,6%. Alls tók 231 fyrirtæki þátt í könnuninni að þessu sinni en í endanlegu úrtaki voru 369 fyrirtæki.

Vísitala efnahagslífsins hefur lækkað frá síðustu könnun sem gerð var í maí úr 196,5 stigum í 189,5 stig. Stór meirihluti forráðamanna fyrirtækjanna telur aðstæður í efnahagslífinu góðar og aðeins 4,2% telja aðstæður slæmar að þessu sinni.

Þótt vísitalan hafi lækkað er hún enn mjög há í sögulegu samhengi. Fyrirtæki í samgöngum, flutningum, ferðaþjónustu, byggingastarfsemi og veitum virðast vera jákvæðust um ástandið í efnahagslífinu en í þessum atvinnugreinum telur enginn að ástandið sé slæmt á meðan að fyrirtæki í sjávarútvegi eru nokkuð neikvæðari.

Vísitala efnahagslífsins

Bjartsýni um horfur í efnahagslífinu á næstu sex mánuðum virðist hafa minnkað, en vísitala efnahagslífsins sex mánuði fram í tímann hefur lækkað úr 106,5 stigum í 80. Þeim hefur því fjölgað sem telja að ástandið muni versna á næstu sex mánuðum frá því í maí síðastliðnum en telja þó flestir að ástandið muni verða óbreytt, eða um 62,4% svarenda.

Enn virðist skortur á starfsfólki vera að aukast, en þeim hefur fjölgað töluvert frá síðustu könnun sem telja að nú sé skortur á starfsfólki í fyrirtækjum sínum, eða úr 51,2% í 58,2% svarenda. Þau fyrirtæki sem líða mestan skort á starfsfólki eru í ýmissi sérhæfðri þjónustu, verslun og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, en viðsnúningur hefur orðið hjá fyrirtækjum í fjármála- og tryggingastarfsemi en skorturinn hjá þeim hefur minnkað úr 71% í 33% frá síðustu könnun. Vísitala starfsmannafjölda hefur lækkað frá síðustu könnun úr 193,9 í 157,1 stig, en nú eru mun fleiri fyrirtæki sem telja að starfsmönnum muni fækka á næstu 6 mánuðum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum