Hoppa yfir valmynd
7. september 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samsetning skatttekna ríkissjóðs

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt nýbirtum ríkisreikningi ársins 2006 námu skatttekjur og tryggingagjöld samtals 377 milljörðum króna það ár. Athyglisvert er að skoða þróun einstakra skattstofna í heildarskatttekjum.

Af helstu liðum skatttekna námu skattar á sölu vöru og þjónustu 186 milljörðum króna árið 2006. Þessir skattar nema um helming allra skatttekna, hlutfallið var um 51% árin 2003 og 2004 og rúm 49% árin 2005 og 2006. Þar af nam virðisaukaskattur 132 milljörðum króna og 35% af skatttekjum í heild, sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. Hlutdeild vörugjalda hefur staðið óbreytt um 11,5% um nokkurt skeið, en dregið úr vægi annarra neyslu og leyfisskatta, sem var um 4% af heildarskatttekjum árið 2003 en 2% árið 2006.

Hlutfallsleg skipting skatttekna og tryggingagjalda (%)

Helstu liðir
2003
2004
2005
2006
Skattar á tekjur og hagnað, einstaklingar
24,2
23,6
21,5
21,6
Skattar á tekjur og hagnað, lögaðilar
5,1
4,2
7,0
8,6
Skattur á fjármagnstekjur
3,8
4,9
6,5
6,3
Skattar á launagreiðslur og vinnuafl
0,2
0,2
0,1
0,1
Eignarskattar
3,6
4,2
4,4
2,3
Virðisaukaskattur
33,8
35,0
34,1
35,0
Vörugjöld
11,7
11,3
11,4
11,6
Sértækir þjónustuskattar
0,8
0,8
0,6
0,7
Neyslu- og leyfisskattar
4,1
4,0
3,1
2,0
Skattar á alþjóðaverslun og viðskipti
1,1
1,1
1,1
1,2
Aðrir skattar
0,5
0,5
0,4
0,4
Tryggingagjöld
10,9
10,3
9,8
10,2
Skatttekjur og tryggingagjöld alls
100,0
100,0
100,0
100,0


Tekjur ríkisjóðs af fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti einstaklinga og lögaðila námu alls 138 milljörðum króna, eða tæpum 37% af heildarskatttekjum, sem er nokkur aukning frá árinu á undan þegar hlutfallið nam 35%. Tekjuskattur einstaklinga nam 81 milljörðum króna árið 2006. Hlutfall tekjuskatts einstaklinga hefur lækkað úr um 24% af heildarskatttekjum árin 2003 og 2004 í um 21,5% árin 2005 og 2006, eftir að skattprósentan var lækkuð um 1 prósentustig hvort ár.

Skattar á tekjur og hagnað lögaðila námu 32 milljörðum króna árið 2006. Hlutur skattsins hefur aukist úr rúmum 4% af heild árið 2004 í 8,6% árið 2006, en hagnaður fyrirtækja, sérstaklega á sviði fjármálaþjónustu, hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Skattur á fjármagnstekjur, sem nam 24 milljörðum króna á síðasta ári, var 6,3% af skatttekjunum, sem er svipað hlutfall og árið 2005.

Tryggingagjöld námu 38,4 milljörðum króna árið 2006 og var hlutfall þeirra rúm 10% af heildarskatttekjum, sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. Tekjur af eignarsköttum hafa hinsvegar dregist mikið saman og voru um 8,7 milljarðar króna árið 2006, sem eru mestmegnis tekjur af stimpilgjöldum og erfðafjárskatti, enda búið að afnema hinn eiginlega eignarskatt. Hlutdeild eignarskatta í skatttekjum í heild hefur því minnkað úr rúmum 4% undanfarin ár í rúm 2% árið 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum