Hoppa yfir valmynd
11. júní 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tilskipun um réttarúrræði vegna opinberra innkaupa

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 7. júní 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á vegum framkvæmdastjórnar ESB hefur verið unnið að endurskoðun á tilskipunum um réttarúrræði vegna opinberra útboða.

Gert er ráð fyrir að Evrópuþingið samþykki nýja tilskipun fljótlega. Í framhaldi af því má reikna með að ákveðið verði að tilskipunin skuli innleidd á öllu EES svæðinu. Þrátt fyrir að sameiginlegar innkaupareglur gildi innan aðildarlanda ESB og þar með EES ríkjanna, nema opinber innkaup á vörum og þjónustu yfir landamæri einungis um 10% af heildarfjárhæð opinberra innkaupa á innri markaði ESB. Miðar tilskipunin m.a. að því að auka gegnsæi þegar opinberir aðilar semja um kaup á vörum og þjónustu. Áætlað er að innkaup ríkis og sveitarfélaga hérlendis nemi um 145 milljörðum árlega, sem svarar til um 15% af vergri landsframleiðslu árið 2005. Í ESB er áætlað að þetta hlutfall sé að meðaltali um
16%.

Í drögum að tilskipuninni er meðal annars lagt til að opinber aðili verði að bíða í að lágmarki 10 daga frá því hann tilkynnir um afstöðu til tilboða og þar til hann gengur frá samningi. Biðtíminn er til að gefa öllum þeim sem verða af samningnum tækifæri til að kæra ákvörðunina og láta með því leiðrétta ákvörðun sem þeir telja óréttláta. Í nýsamþykktum lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 hefur þegar verið gert ráð fyrir 10 daga biðtíma sbr. 76. gr. Með þessu gefst ósáttum bjóðendum kostur á að kæra ákvörðunina til kærunefndar útboðsmála og krefjast þess að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir meðan nefndin fjallar um málið.

Þá mun tilskipunin væntanlega einnig kveða á um úrræði í þeim tilvikum þegar gerðir hafa verið samningar beint við fyrirtæki án þess að útboðsskyldu hafi verið sinnt, en samningar án úboðs eru aðeins heimilaðir í undantekningartilfellum. Þegar útboðsskylda hefur ekki verið virt er gert ráð fyrir að fyrirtæki á markaði geti krafist ógildingar samnings a.m.k. innan 6 mánaða frá því samningur er gerður, t.d. með kæru til kærunefndar. Það á einnig við ef 10 daga biðtíminn hefur ekki verið virtur. Að öðru leyti er aðildarþjóðum ESB og EES gert að setja eigin reglur um frekari úrræði hvað þetta varðar, t.d. stjórnvaldssektir. Fjármálaráðherra fer með opinber innkaup hérlendis. Starfandi er Kærunefnd útboðsmála sem leysir úr kærum er varða lög og reglur um opinber innkaup en hún er óháð fjármálaráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum