Hoppa yfir valmynd
15. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í apríl

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands sem byggðar eru á innheimtu virðisaukaskatts var vöruskiptahalli 11,3 milljarðar króna í apríl.

Útflutningur reyndist vera 19 milljarða króna virði en flutt var inn fyrir 30,3 milljarða. Vöruskiptahallinn jókst nokkuð miðað við þróun undangenginna mánaða og er það tengt útflutningi. Ef nánar er rýnt í tölurnar var talsverður samdráttur í útflutningi sjávarafurða, áls og kísiljárns frá því í mars. Gert er ráð fyrir að álútflutningur aukist næstu mánuði með aukinni framleiðslu álvers Alcoa á Reyðarfirði.

Innflutningur í apríl var 3,7 milljörðum króna minni en í mars. Ef marka má bráðabirgðatölur skýrist lækkandi innflutningur milli mánaða af minni innflutningi á eldsneyti, en sá þáttur er sveiflukenndur. Einnig dregst innflutningur fjárfestingarvöru nokkuð saman á meðan innflutningsvirði hrá- og rekstrarvara eykst á móti.

Gera má ráð fyrir að innflutningur á hrá- og rekstrarvörum aukist á næstu misserum vegna aukins innflutnings aðfanga fyrir álframleiðslu, en hann var nokkru meiri í apríl en mars. Innflutningur neysluvöru í apríl lækkaði nokkuð miðað við tölur í mars en þá var neysluvöruinnflutningur í hærra lagi. Innflutningur á bílum breyttist lítið milli mánaða, en hann hefur dregist mikið saman frá því er mest lét.

Staðvirtur vöruinnflutningur án skipa og flugvéla janúar 2003-apríl 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum