Hoppa yfir valmynd
11. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Búferlaflutningar íslenskra ríkisborgara

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á 20 ára tímabili frá 1987 til 2006 fluttu rúmlega 20.000 erlendir ríkisborgarar til landsins umfram þá sem fóru af landi brott.

Sú þróun hefur orðið til að auka umræðu um aðstreymi erlendra ríkisborgara til landsins. Minna hefur borið á umræðu um stóraukið streymi íslenskra ríkisborgara á milli landa á tímabilinu, þegar 55.000 Íslendingar fluttu af landi brott á meðan 47.700 sneru til baka. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru því 7.300, sem er álíka mikill fjöldi og býr á Vestfjörðum eða í Mosfellsbæ.

Norðurlöndin hafa sögulega skipt mestu máli fyrir Íslendinga þegar flutt er milli landa sem sést vel á myndinni hér fyrir neðan. Þrír af hverjum fjórum fluttu til hinna Norðurlandanna á umræddu tímabili, en þar af fóru tveir þriðju til Danmerkur. Á samdráttarskeiðinu um miðjan tíunda áratug síðustu aldar tóku Norðurlöndin við yfir 80% af brottfluttum Íslendingum, en það skýrist m.a. af því að Íslendingar höfðu einungis frjálsan aðgang að norrænum vinnumarkaði á þeim tíma.

Með aðild Íslands að samningnum um evrópskt efnahagssvæði (EES) árið 1994 opnuðust vinnumarkaðir annarra Evrópulanda fyrir Íslendingum. Hugsanlega skýrir það þá þróun að brottfluttir íslenskir ríkisborgarar hafa verið fleiri en aðfluttir undanfarin ár, ef 2005 er undanskilið, þegar mikil uppsveifla ríkti í atvinnu- og efnahagslífinu. Fjölgun starfa hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis skýrir líklega hluta af þeirri þróun.

Nettóflutningar íslenskra ríkisborgara til Íslands 1987-2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum