Hoppa yfir valmynd
10. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áhrif skattbreytinga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 3. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Mikið hefur verið fjallað um það að undanförnu hvaða áhrif tilteknar breytingar á forsendum álagningar í skattkerfinu hafa.

Hvaða áhrif hefur tiltekin breyting á skattkerfinu á ráðstöfunartekjur heimilanna annars vegar og afkomu ríkissjóðs hins vegar? Fjármálaráðuneytið áætlar slík áhrif á grundvelli ópersónugreinanlegs gagnagrunns frá Ríkisskattstjóra þar sem er að finna helstu tölur úr framtölum allra einstaklinga. Með tilteknum forsendum um skatthlutföll, persónuafslátt og bætur, ásamt áætlunum um þróun mannfjölda og einstakra tekjuþátta er upphæð skatttekna ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga reiknuð út.

Árið 2007 er áætlað að tekjuskattur einstaklinga nemi 76,2 milljörðum króna. Til samanburðar er áætlað að útsvar sveitarfélaganna skili 81,4 milljörðum króna í ár. Breytingar á álagningarforsendum hafa annarsvegar áhrif á skattgreiðslur einstaklinga og hins vegar áhrif á tekjur ríkissjóðs. Hið síðarnefnda stafar af því að þegar persónuafslætti eða skatthlutfalli er breytt hefur það áhrif á hve mikið ríkissjóður þarf að greiða sveitarfélögunum til að þau fái útsvarið óskert.

Miðað við að tekjuskattshlutfallið væri t.d. lækkað úr 22,75% í 21,75% hefði það í för með sér 6,3 milljörðum króna minni skattgreiðslur einstaklinga til ríkissjóðs en um 7,2 milljarða samdrátt í tekjum ríkissjóðs. Miðað við að persónuafsláttur á mánuði væri t.d. hækkaður um 1.000 krónur, úr 32.150 kr í 33.150, hefði það í för með sér 2,2 milljarða króna minni skattgreiðslur einstaklinga en 3 milljarða króna samdrátt í tekjum ríkissjóðs. Ofangreindir útreikningar taka ekki til greina að hluti aukinna ráðstöfunartekna einstaklinga skilar sér sem tekjur ríkissjóðs í formi óbeinna skatta vegna aukinna neysluútgjalda þeirra.

Þegar fjallað er um skattleysismörkin og hækkun þeirra má ekki gleyma að þau ráðast af skatthlutfallinu annars vegar og persónuafslættinum hins vegar. Skattleysismörkin nema nú um 90.000 kr. á mánuði.

Ef miðað er við að persónuafslátturinn einn sé notaður til að hreyfa við skattleysismörkunum og einungis horft til tekna ríkissjóðs fæst eftirfarandi niðurstaða miðað við tiltekin skattleysismörk. Miðað er við að frestað sé skattlagningu 4% lífeyrissjóðsiðgjalds.

Áhrif skattleysismarka á tekjur ríkissjóðs

Skattleysismörk
á mánuði, kr.
Tekjuminnkun
ríkissjóðs, ma.kr.
Hlutfall af 76,2
ma.kr. tekjuskatti
einstaklinga, %
90.000
0,0
0,0
100.000
6,4
8,4
110.000
16,0
21,0
120.000
25,3
33,2
130.000
34,0
44,6
140.000
42,3
55,5
150.000
50,2
65,9


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum