Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglugerð um heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. febrúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðherra hefur sett reglugerð um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli.

Reglugerðin er sett á grundvelli laga um ársreikninga þar sem kveðið er á um veitingu slíkrar heimildar. Samkvæmt lögunum getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu heimildar en í lögunum greinir. Markmiðið með reglugerðinni er að skýra nánar nokkur skilyrði lag anna fyrir veitingu heimildar til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli.

Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að það sé skilyrði fyrir því að heimild sé veitt til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli að viðkomandi gjaldmiðill teljist vera starfrækslugjaldmiðill félagsins sem í hlut á, en starfrækslugjaldmiðill er samkvæmt reglugerðinni sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í viðskiptum félags eða samstæðu og meginhluti viðskipta félags eða samstæðu fer fram í. Erlendi gjaldmiðillinn sem sótt er um heimild til uppgjörs í verður m.ö.o. að vega þyngra en íslenska krónan í viðskiptum hlutaðeigandi félags. Við mat á því í hvaða gjaldmiðli meginhluti viðskipta fer fram skal litið heildstætt til tekna, gjalda, eigna, skulda og annarra viðskiptalegra þátta í rekstri viðkomandi félags. Með reglugerðinni eru og sett nánari ákvæði varðandi eftirlit með því að félög sem fengið hafa heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli uppfylli skilyrðin fyrir heimildinni.

Þá má nefna að í reglugerðinni er kveðið á um að ef lánastofnun sækir um heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli, skuli ársreikningaskrá leita umsagnar Seðlabanka Íslands um umsóknina.

Reglugerðin sem um ræðir er nr. 101/ 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum