Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um aðhaldsstig ríkisfjármála

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 1. febrúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins kemur fram að hægja tók á vexti þjóðarútgjalda, þ.e. neyslu og fjárfestingar, árið 2006.

Þessa þróun má m.a. rekja til veikingar á gengi krónunnar og aukins aðhalds í efnahagsstjórn. Aðhald í stjórn peningamála jókst mikið árið 2006. Þá benda nýjar hagtölur til þess að aðhaldsstig ríkisfjármála hafi aukist enn það ár.

Til að meta hagstjórnaráhrif ríkisfjármála er nauðsynlegt að aðgreina hagsveifluáhrif frá langtímajafnvægi í tekjuafkomu ríkissjóðs. Slík leiðrétting er gerð á grundvelli mælinga á framleiðsluspennu sem er munurinn á mældri landsframleiðslu og metinni framleiðslugetu.

Samhliða miklum hagvexti árið 2005 jókst framleiðslugeta hagkerfisins umtalsvert og framleiðsluspennan var það ár metin 3,8% af framleiðslugetu. Nýjungar á fjármálamarkaði árin 2004 og 2005 lögðust á eitt með stóriðjuframkvæmdum til að auka hagvöxt og ójafnvægi tímabundið. Vegna minni hagvaxtar árið 2006 minnkaði framleiðsluspennan og er nú talin hafa verið 1,0% af framleiðslugetu.

Árið 2006 er hagsveifluleiðréttur tekjuafgangur ríkissjóðs áætlaður 4,5% af landsframleiðslu og hélt hann því áfram að aukast á milli ára, en hagsveifluleiðréttur tekjuafgangur árið 2005 nam 4,0% af landsframleiðslu og 0,9% árið 2004. Árið 2003 varð 1% kerfislægur tekjuhalli á ríkissjóðs. Milli áranna 2003 og 2006 jókst því kerfislægur afgangur ríkissjóðs um 5,5% af landsframleiðslu sem staðfestir að aðhaldsstig ríkisfjármála varð umtalsvert þegar uppsveiflan var í hámarki.

Í ár og á næsta ári er gert ráð fyrir miklum samdrætti í þjóðarútgjöldum og að kerfislæg afkoma ríkissjóðs dragist saman sem stuðlar að aðlögun hagkerfisins að jafnvægi.

Afkoma ríkissjóðs 2000-2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum