Hoppa yfir valmynd
12. desember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruinnflutningur í nóvember

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 7. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu var vöruskiptahalli 13 milljarðar króna í nóvember.

Þetta er töluvert meiri halli en sést hefur síðustu mánuði en hann má rekja til aukins innflutnings. Á ársgrundvelli hefur þriggja mánaða staðvirtur innflutningur hins vegar lækkað um 2%.

Ef rýnt er nánar í bráðabirgðatölur, sem eru byggðar á innheimtu virðisaukaskatts við innflutning, sést að stærstan hlut aukningar milli mánaða má rekja til eldsneytisinnflutnings en sá liður er mjög sveiflukenndur. Innflutningur virðist einnig aukast töluvert á fjárfestingarvörum milli mánaða. Innflutningur á bílum leitar upp á við eftir að hafa náð lágmarki í október. Innflutningur á öðrum neysluvörum eykst lítillega milli mánaða.

Staðvirtur vöruinnflutingur janúar 2003-nóvember 2006Seðlabankinn birti tölur um viðskiptajöfnuð á fyrstu þrem ársfjórðungum þessa árs þann 5. desember. Viðskiptajöfnuðurinn telst vera neikvæður um 205 milljarða króna það sem af er ári.

Þáttatekjur eiga hvað mestan þátt í aukningunni en aukin skuldsetning og vaxtagjöld til erlendra aðila ásamt auknum hagnaði fyrirtækja í eigu erlendra aðila (t.d. álver eða íslensk fyrirtæki skráð erlendis) eru helstu orsakir aukins halla á þáttatekjum. Viðskiptahallinn er töluvert umfram þjóðhagsspá og stendur nú til jafns við spá um viðskiptahalla yfir allt árið. Misræmið má að langmestu leyti rekja til aukins halla á þáttatekjum. Með hliðsjón af vöruinnflutningi í janúar - nóvember má ætla að innflutningur verði nokkuð nálægt haustspá en hún hljóðaði upp á 360,7 milljarða. Hins vegar lítur út fyrir að vöruútflutningur verði eitthvað minni en gert var ráð fyrir. Halli á þjónustujöfnuði hefur einnig verið vanmetinn en hann er neikvæður um 42,8 milljarða fyrstu 9 mánuði árs en spá hljóðaði upp á 38,7 milljarða halla fyrir allt árið.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum