Hoppa yfir valmynd
30. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Inneign ríkisins í Seðlabanka Íslands

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 26. október 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýlegu vefriti fjármálaráðuneytisins var fjallað um sveiflujöfnun opinberra fjármála á Íslandi.

Þar kom fram að aðhaldsstigið á Íslandi var með mesta móti í OECD-ríkjunum undanfarin ár vegna góðs árangurs í fjármálastjórn ríkissjóðs. Í þessu samhengi er vert að minna á að mikill tekjuafgangur ríkissjóðs og tekjur af einkavæðingu hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir eða breyta eignastöðu ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með því er fjármunum haldið utan við hagkerfið til að fyrirbyggja aukna þenslu. Í þessari grein er fjallað nánar um þróun inneignar ríkissjóðs í Seðlabankanum.

Fram undir árið 1997 var staða ríkissjóðs gagnvart bankanum yfirleitt neikvæð sem nam um 5–10 milljörðum króna. Eftir að tekist hafði að stöðva langvarandi hallarekstur ríkisins tóku innlán ríkissjóðs í bankanum að aukast og voru komin í um 30 milljarða á árinu 2001 þegar síðasta hagsveifla náði hámarki. Árin þar á eftir hægði á hagvextinum og innlánsstaðan lækkaði í um 20 milljarða. Hagvöxtur varð mjög kröftugur að nýju árið 2004 og var þá ákveðið að auka verulega við þá fjármuni sem ríkið leggur til hliðar með þessum hætti.

Inneign ríkisins í Seðlabanka Íslands 1997-2006

Í ágúst sl. var inneign ríkissjóðs í Seðlabankanum orðin um 105 milljarðar króna eða sem svarar til nálægt 10% af landsframleiðslunni. Óhætt er að fullyrða að ríkið hafi aldrei áður átt viðlíka sjóð í bankanum. Um einn þriðji hluti inneignarinnar er upprunninn í vel heppnaðri sölu á Landssímanum til einkaaðila á árinu 2005 fyrir um 67 milljarða króna. Ákveðið var að binda 32 milljarða króna af söluandvirði fyrirtækisins í skuldabréfum til nokkurra ára í Seðlabankanum en afgangurinn var að mestu notaður til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins og lækka þar með vaxtabyrðina. Um tveir þriðju hlutar af núverandi inneign, tæpir 73 milljarðar króna, eiga rætur að rekja til tekjuafgangs ríkissjóðs sem myndast hefur bæði með innbyggðri sveiflujöfnun og aðhaldssemi í ríkisfjármálunum, sérstaklega á síðasta ári og þessu ári þegar þjóðarskútan hefur verið á mikilli siglingu yfir kúfinn á hagsveiflunni. Þá liggur fyrir í langtímaáætlun í ríkisfjármálum og lögum sem sett voru á sl. haustþingi að hluta af þessum fjármunum verður ráðstafað til að vega á móti samdrætti í fjárfestingu orkufyrirtækja og einkafyrirtækja á árunum 2007 til 2010 með því að auka verulega fjárfestingu ríkisins, einkum í samgöngumálum og heilbrigðiskerfinu. Sá hluti nemur um 32 milljörðum króna eða sem svarar til skuldabréfanna sem gefin voru út á móti hluta af söluandvirði Landssímans.

Sá varasjóður sem hér um ræðir mun, ef á þarf að halda, veita stjórnvöldum meira svigrúm til að mæta samdrætti í tekjum í kjölfar lækkunar á sköttum á matvæli eða jafnvel tímabundnum áhrifum á ríkisútgjöldin ef hagvöxtur reynist verða minni á næstu árum en nú er spáð. Sveiflujafnandi beiting ríkisfjármálanna endurspeglast þannig að miklu leyti í stöðu ríkissjóðs við Seðlabankann. Athyglisvert er að á sama tíma og þessi mikla inneign hefur verið mynduð hafa skattar verið lækkaðir, skuldir ríkisins greiddar upp í miklum mæli og LSR lagðir til umtalsverðir fjármunir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum