Hoppa yfir valmynd
2. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýr tvísköttunarsamningur við Bandaríkin

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fyrr í þessari viku luku samninganefndir Íslands og Bandaríkjanna við gerð nýs tvísköttunarsamnings milli þjóðanna sem koma mun í staðinn fyrir eldri samning þeirra, en sá samningur er frá árinu 1975.

Nýi samningurinn endurspeglar þær breytingar sem átt hafa sér stað í stefnu og áherslum beggja þjóða á sviði tvísköttunarmála sl. þrjá áratugi, eða frá því að eldri samningur var gerður.

Nokkrar meginbreytingar er að finna í nýja samningnum. Í fyrsta lagi verður að frumkvæði Íslands tekinn upp afdráttarskattur á tilteknar tegundir þóknana (royalties), sem ekki er að finna í eldri samningi. Þessi breyting er í takt við stefnu íslenskra stjórnvalda í tvísköttunarmálum sem verið hefur í gildi frá árinu 1999. Í öllum þeim tvísköttunarsamningum sem gerðir hafa verið fyrir Íslands hönd frá því ári er að finna afdráttarskatt á þóknanir.

Í öðru lagi er að frumkvæði Bandaríkjanna gerð sú breyting að tekin eru upp sérstök takmarkandi ákvæði (Limitations on benefits) sem ætlað er að tryggja að einungis þeir skattaðilar sem uppfylla skilyrði þeirra ákvæða njóti ívilnana samningsins. Sambærileg ákvæði var ekki að finna í samningnum frá árinu 1975.

Í þriðja lagi er breyting sem vert er að nefna, en hún er sú að í nýjum samningi eru tekin af öll tvímæli um að lífeyrissjóðir njóti ívilnana samningsins varðandi greiðslur frá Bandaríkjunum, en ákvæði eldri samnings varðandi lífeyrissjóði voru mjög óljós.

Að lokum má benda á að í nýja samningnum er að finna sólarlagsákvæði gagnvart eldri samningi, eða í tólf mánuði frá gildistöku nýs samnings. Nýr samningur tekur gildi í upphafi næsta árs frá undirritun hans.

Framundan er undirbúningur að þýðingu og frekari frágangi nýja samningsins, en ekki liggur enn fyrir hvenær hann verður undirritaður. Á meðan er eldri samningur í fullu gildi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum