Hoppa yfir valmynd
5. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðhald í ríkisfjármálum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýútgefinni skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi (Financial Stability in Iceland) er fjallað um mögulegar úrbætur í opinberum fjármálum á Íslandi.

Annars vegar er talin þörf á að taka upp sérstaka reglu við stjórn opinberra fjármála sem takmarki vöxt útgjalda ríkis og sveitarfélaga við framleiðni hagkerfisins, og auki sjálfvirka sveiflujöfnun og skilvirkni hagstjórnarinnar í heild. Hins vegar er nefnt að aðhaldsstig opinberra fjármála undanfarin ár hafi verið ónógt ef tekið er tillit til hagsveifluáhrifa samkvæmt útreikningi Seðlabankans.

Frá því að ríkisstjórnin tók upp langtímamarkmið í stjórn ríkisfjármála árið 2003 hefur markvisst verið unnið að því að draga úr vexti ríkisútgjalda. Markmið voru sett um að ársvöxtur samneyslu yrði 2% að raunvirði og vöxtur tekjutilfærslna 2,5%. Ekki var sett vaxtarmarkmið um fjárfestingu ríkissjóðs heldur var margvíslegum framkvæmdum skotið á frest árin 2004-2006. Vegna þessara aðgerða er áætlað að hlutdeild ríkisútgjalda í landsframleiðslu lækki úr 34,8% árið 2003 í 31,1% af landsframleiðslu árið 2006, eða um tæp 4%. Tekjur sem hlutdeild af landsframleiðslu jukust hins vegar mikið og tekjuafgangur ríkissjóðs lét ekki á sér standa, en hann var 1,3% af landsframleiðslu árið 2004, 3,8% árið 2005 og er áætlaður 2,4% árið 2006. Þessu var ólíkt farið í síðustu uppsveiflu þegar útgjöld ríkissjóðs jukust meira en landsframleiðslan.

Aðhald í ríkisfjármálum

Núverandi stjórn ríkisfjármála er nálægt því að fylgja ákveðinni reglu og er líklega aðhaldsmeiri en skýrslan leggur til. Í skýrslunni er tekið undir það sjónarmið fjármálaráðuneytisins að vænlegra til árangurs í ríkisfjármálum sé að kalla fram aðhald með ákveðnum markmiðum heldur en beita viðamiklum sértækum aðgerðum, en þeim fylgir sú hætta að mistök í tímasetningu aðgerða auki sveiflur í efnahagslífinu frekar en draga úr þeim.

Varðandi áhrif hagsveiflunnar á aðhaldsstig ríkisfjármála er stuðst við mat á framleiðslugetu hagkerfisins, eða þeim vaxtarhraða sem samræmist verðstöðugleika. Ljóst er að 5% hagvöxtur eða meira mörg ár í röð er líklegt til að vera umfram jafnvægishagvöxt. Spurningin er því ekki hvort spenna sé í hagkerfinu um þessar mundir, heldur hve mikil hún er. Fjármálaráðuneytið, sem byggir mat sitt á alþjóðlegum mæliaðferðum, fær út umtalsverða spennu en þó minni en kemur fram samkvæmt sérstökum mæliaðferðum Seðlabankans. Þá er mikilvægt að hafa í huga að opnun hagkerfisins undanfarin ár hefur aukið framleiðslugetu og dregið úr framleiðsluspennu, en áhrif alþjóðavæðingarinnar til að draga úr verðbólgu hafa verið merkjanleg út um allan heim undanfarin ár. Þau áhrif koma líklega ekki nema að hluta fram í ofangreindum mælingum. Miðað við mat ráðuneytisins á framleiðsluspennu var sveiflujafnaður tekjuafgangur ríkissjóðs 0,8% af landsframleiðslu árið 2004 og 2,8% árið 2005, og er áætlaður 1,3% í ár. Með öðrum orðum, fjármálastjórnin er mjög við hæfi og aðhald í ríkisfjármálum hefur verið umtalsvert í uppsveiflunni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum