Hoppa yfir valmynd
20. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagvöxtur 2005

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fyrir skömmu birti Hagstofa Íslands áætlun um landsframleiðslu ársins 2005 og endurskoðun þjóðhagsreikninga fyrir árið 2004. Niðurstaða Hagstofunnar er að hagvöxtur var 8,2% árið 2004 sem er tveimur prósentustigum meiri hagvöxtur en fyrri tölur stofnunarinnar gáfu til kynna. Þessi endurskoðun gæti leitt til að reiknuð framleiðsluspenna hafi verið meiri en áður var áætlað. Á móti vegur að búast má við því að framleiðslugetan hafi einnig verið meiri árið 2004. Þessar línur munu væntanlega skýrast með útgáfu á Þjóðarbúskapnum 25. apríl nk.

Hagvöxtur í fyrra var 5,5% en sú tala getur tekið breytingu þegar Hagstofan fær frekari gögn til að vinna úr, sérstaklega hvað snertir fjárfestingu atvinnuvega. Hins vegar eru tölur Hagstofunnar í þokkalegu samræmi við þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins fyrir árið 2005 sem birt var í byrjun í janúar sl. Í þjóðhagsspá ráðuneytisins var gert ráð fyrir 5,1% hagvexti og að þjóðarútgjöld myndu vaxa um 14% á meðan Hagstofan áætlar tæplega 15% vöxt árið 2005. Vöxtur einkaneyslunnar er nánast sá sami hjá þessum tveimur stofnunum. Aftur á móti hefur Hagstofan áætlað heldur meiri viðskiptahalla á síðastliðnu ári eða 16,5% af landsframleiðslu en fjármálaráðuneytið hafði reiknað um 15% af landsframleiðslu.

Verg landsframleiðsla í hverjum ársfjórðungi 1997:1 - 2005:4

Forvitnilegt er að skoða hagvaxtarþróunina undanfarin misseri. Þannig hefur landsframleiðslan farið vaxandi á undanförnum ársfjórðungum eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd. Í yfirstandandi efnahagsuppsveiflu hefur hagvöxturinn hingað til verið mestur á fjórða ársfjórðungi 2004 miðað við sama tímabil árið áður eða um 12%. Til samanburðar var hagvöxturinn í efnahagsuppsveiflunni 1997-2000 mestur á fyrsta ársfjórðungi 1999 eða rúmlega 14%. Hagvöxtur hér á landi hefur verið að meðaltali um 4,3% á ári tímabilinu 1997-2005.

En hvaða þættir skýra aukinn hagvöxt að undanförnu? Um það er engum blöðum að fletta að fjárfesting, sérstaklega atvinnuveganna, og einkaneysla hafa verið hinir leiðandi þættir í hagvextinum. Á sama tíma hefur hins vegar dregið úr framlagi samneyslunnar. Ljóst er því að framlag einkaneyslunnar til hagvaxtar skiptir miklu máli. En hvaða liðir vega hér þyngst?

Eins og við mátti búast hafa þeir undirliðir einkaneyslunnar, sem eru háðir gengi erlendra gjaldmiðla, aukist mest í útgjöldum heimilanna að raungildi milli áranna 2004 og 2005, en þar er helst að nefna útgjöld íslenskra ferðamanna erlendis og innflutning einkabifreiða og heimilistækja eins og fram kemur í töflunni í næsta dálki.

Að lokum skal þess getið að Hagstofa Íslands áætlar að vöxtur samneyslunnar hafi verið 3,2% árið 2005. Þessari tölu ber að taka með fyrirvara þar sem magnbreyting samneyslunnar gæti verið ofmetin. Þetta álit er byggt á því að keypt þjónusta hins opinbera er vaxandi hluti samneyslunnar. Gert er ráð fyrir að stór hluti í þessum þjónustulið séu laun. Samkvæmt aðferðafræði Hagstofunnar eru keyptar vörur og þjónusta hins opinbera staðvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar. Á undanförnum misserum hefur slík vísitala ekki hækkað eins mikið og launavísitala opinberra starfsmanna eða almenna launavísitalan. Ef launahlutinn í keyptri þjónustu hins opinbera væri staðvirtur með launavísitölu í stað vísitölu neysluverðs án húsnæðis má búast við að magnbreyting samneyslu hins opinbera yrði eitthvað lægri en nú er reiknað með. Þetta mál er í skoðun hjá Hagstofunni.

Þróun helstu undirliða einkaneyslu 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum