Hoppa yfir valmynd
12. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í nóvember 2005

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum byggðum á innheimtu virðisaukaskatts var vöruinnflutningur í nóvembermánuði um 27,5 milljarðar án innflutnings skipa og flugvéla.

Ef tölurnar reynast réttar er nóvember stærsti innflutningsmánuður það sem af er ári, þótt júní og september fylgi fast á eftir. Að raungildi er innflutningur um 52% meiri en í nóvember í fyrra. Að sama skapi er meðalinnflutningur síðustu þriggja mánaða um 44% meiri en á sama tímabili á síðasta ári sem er mesta aukning undanfarinna ára.

Innflutningur að raunvirði


Ef bráðabirgðatölur eru lagðar saman við innflutning fyrstu 10 mánuði ársins er verðmæti innflutnings það sem af er ári rúmlega þriðjungi meira en á sama tíma í fyrra að raungildi.

Megin skýringar á aukningu milli ára má rekja til ýmissa þátta. Gífurleg aukning hefur orðið í magninnflutningi á fjárfestingarvörum, sem er að stærstum hluta tilkomin vegna stóriðjuframkvæmda. Verðhækkanir á olíu yfir árið hafa að einnig haft umtalsverð áhrif til að auka innflutning. Ennfremur má nefna liði tengda aukinni einkaneyslu sem lýsir sér í stórauknum innflutningi á farartækjum og varanlegum og hálf-varanlegum neysluvörum en þar er átt við heimilistæki, fatnað o.fl. Hafa ber í huga varðandi farartæki og neysluvarning að þar er aðallega um að ræða magnaukningu þar sem hátt gengi hefur haldið verðhækkunum í skefjum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum