Hoppa yfir valmynd
7. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Litlar launahækkanir þrátt fyrir mikil umsvif

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagstofa Íslands hefur birt launavísitölu fyrir októbermánuð.

Þar kemur fram að hækkun frá fyrra mánuði er 0,3%, nokkurn veginn sama hækkun og í fyrra mánuði og heldur minna en verið hefur milli mánaða á þessu ári.

Launavístölunni er ætlað að mæla almenna hækkun launa í samfélaginu og gjarna hefur hækkunum verið skipt í tvennt, samningsbundnar launahækkanir og svo kallað launaskrið. Þessi skipting hefur þó minna vægi nú en á árum áður. Hækkanir geta verið samningsbundnar án þess að vera almennar, t.d. þegar launþegar fá hækkun sem byggist á reynslu, menntun, starfstíma og fleiru. Það sem skiptir máli fyrir hagkerfið í heild er hin almenna launaþróun, hvert sem tilefni hennar er.

Breyting launavísitölu milli mánaða

Eins og nú er ástatt í samfélaginu eru mikil umsvif á vinnumarkaði, eins og fjallað hefur verið um í fyrri tölublöðum vefritsins. Við þær aðstæður er hætt við að meiri spurn verði eftir vinnuafli en framboð og þá fer með verð á því eins og öðru sem ekki er nóg af – það hækkar. Þetta hefur verið mönnum áhyggjuefni eins og nú er ástatt hér á landi.

Tölur Hagstofunnar um þróun launavísitölu sýna að þrátt fyrir mikla spennu á vinnumarkaði og skort á fólki með tiltekna menntun eða þjálfun er ekki að sjá mikil teikn um launahækkanir umfram það sem búast mátti við enda hefur innflutningur vinnuafls og aukin atvinnuþátttaka vegið á móti.

Á myndinni má sjá breytingar á launavísitölunni milli mánaða undanfarin ár. Þar er rétt að vekja athygli á samanburði milli þróunarinnar á þessu ári og árinu 2001 en þá voru miklar hækkanir á launum umfram þær samningsbundnu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum