Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun meðaltekna eftir aldurshópum

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Sem oft áður hafa kjör aldraðra verið til umræðu á undanförnum vikum. Sama gildir með aldraða og aðra þjóðfélagshópa að seint næst samstaða um það hvaða útreikningar lýsa kjörum þeirra best.

Breytingu má bæði miða við stöðu frá fyrri tíma og einnig samanburð við aðra hópa. Þá ber þess að gæta að kjör aldraðra innbyrðis eru ólík sem og annarra þjóðfélagshópa.

Benda má hins vegar á að almennt hafa tekjur aldraðra þróast með mjög áþekkum hætti og annarra þjóðfélagshópa ef litið er til þróunar meðaltekna síðasta áratuginn. Það má sjá á eftirfarandi mynd sem byggist á gögnum úr skattframtölum og sýnir breytingu á heildartekjum þ.m.t. fjármagnstekjum á árunum 1991 til 2004, – annars vegar heildartekjum einhleypra á aldrinum 25 til 66 ára og 67 ára og eldri og hins vegar heildartekjum hjóna í sömu aldurshópum.

Heildartekjur


Á þessu árabili hafa heildartekjur einhleypra á aldrinum 25 til 66 ára aukist um 119% en einhleypra á aldrinum 67 ára og eldri um 134%. Á sama tíma hafa heildartekjur hjóna á aldrinum 25 til 66 ára og á aldrinum 67 ára og eldri aukist um 150%. Þróun heildartekna hefur því verið mjög áþekk hjá þeim sem eru yngri en 67 ára og þeim sem hafa náð þeim aldri.

Þessar niðurstöður ganga þvert á staðhæfingar um að aldraðir séu afskiptir þegar kemur að þróun tekna. Í umræðum um kjaramál hefur þróun ráðstöfunartekna verið borin saman við þróun launavísitölu. Í raun er hér um tvo ólíka mælikvarða að ræða þar sem ráðstöfunartekjur sýna tekjur þegar tillit hefur verið tekið til beinna skatta og greiðslna frá hinu opinbera. Launavísitala mælir hins vegar launaþróun sem ræðst m.a. af vinnumagni. Það er því mikilvægt að þessum tveimur mælikvörðum sé ekki blandað saman í opinberri umræðu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum