Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Bréf fjármálaráðherra vegna sjómannasamninga

Hinn 29. október sl. ritaði fjármálaráðherra Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og Fiskimannasambandi Íslands bréf v. framkominnar beiðni forystumanna þessara samtaka um að fjármálaráðherra upplýsti þá um hvort áformað sé að leggja fram á ný og lögfesta stjórnarfrumvarp sem lagt var fram á síðasta Alþingi um afnám sjómannaafsláttar í áföngum. Bréf fjármálaráðherra er svohljóðandi :

Forystumenn Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafa vegna viðræðna við Landsamband íslenskra útvegsmanna um nýjan kjarasamning, sem nú mun vera á lokastigi, farið þess á leit við fjármálaráðherra að hann upplýsi þá um hvort áformað sé að leggja fram á ný og lögfesta stjórnarfrumvarp sem lagt var fram á síðasta Alþingi um afnám sjómannaafsláttar í áföngum.

Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki eru á þessu stigi uppi áform um afnám sjómannaafsláttarins. Jafnframt skal tekið fram að ef til lagasetningar um afnám sjómannaafsláttar kæmi yrði við það miðað að slík lög kæmu ekki til framkvæmda á gildistíma þess kjarasamnings sem framangreind samtök eru nú með í smíðum. Fjármálaráðherra ráðgerir hins vegar að beita sér fyrir endurskoðun á lagaákvæðum um sjómannaafslátt með það að markmiði að sjómannaafsláttur verði afmarkaður frekar og takmarkaður við þá sem hafa sjómennsku að aðalstarfi.

Geir H. Haarde



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum