Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna umræðu um kaup á eignarhlut ríkisins í fasteignum St. Jósefsspítala

Vegna umræðu um kaup Hafnarfjarðarbæjar á eignarhlut ríkisins í fasteignum St. Jósefsspítala vil fjármála- og efnahagsráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Ráðuneytið hefur í fyrri samskiptum við Hafnarfjarðarbæ lýst því að það væri reiðbúið hefja viðræður um kaup við sameiganda sinn að eignunum. Hafnarfjarðarbær hafði þó fram að þessu ekki lýst yfir áhuga á slíkum viðræðum.

Eignirnar voru síðast auglýstar til sölu um mitt árið 2014 í samstarfi við sveitarfélagið. Vegna skilyrða um heilbrigðistengda starfsemi í söluauglýsingu bárust örfá tilboð sem voru jafnframt langt frá fyrirliggjandi verðmati og af þeim sökum var öllum þeim tilboðum hafnað. Hafnarfjarðarbær hefur hins vegar um nokkurt skeið ekki fallist á að eignirnar yrðu auglýstar aftur til sölu með almennum hætti.

Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um væntanlega sölu eignanna hafa fjölmargar fyrirspurnir borist um eignirnar sem benda sterklega til þess að mikill áhugi sé fyrir þeim á hinum almenna markaði. Þá hafa einnig nokkur áhugaverð tilboð borist í eignirnar þótt þær hafi ekki verið í formlegu söluferli í nokkurn tíma. Ljóst virðist að vilji er fyrir því að hefja aftur starfsemi í umræddum fasteignum í þágu nærsamfélagsins. Það eru sameiginlegir hagsmunir ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar að koma eignunum sem fyrst í notkun enda óviðunandi að húsnæðið standi autt um lengri tíma. Frekari dráttur málsins leiðir til aukins kostnaðar, einkum fyrir ríkið sem hefur borið allan rekstrarkostnað húsnæðisins frá því að starfsemi lagðist af í eignunum, og seinkar því að eignirnar verði gerðar upp og nýttar að nýju.

Ráðuneytið fagnar breyttri afstöðu Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kemur að sveitarfélagið óski eftir að kaupa eignarhlut ríkissjóðs í fasteignum St. Jósefsspítala og er reiðubúið að hefja viðræður við sveitarfélagið við fyrsta tækifæri. Ljóst er að allar slíkar viðræður munu þurfa að byggja á sannvirði eignanna eins og almennt gildir um ráðstöfun eigna ríkisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum