Hoppa yfir valmynd
12. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðgerðaráætlun OECD gegn rýrnun skattstofns og tilfærslu hagnaðar

Efnahags- og framfarastofnununin (OECD) ásamt leiðtogum G20 ríkjanna hefur kynnt lokaskýrslu vegna BEPS aðgerðaráætlunarinnar. BEPS stendur fyrir enska heitið Base Erosion and Profit Shifting og snýr að aðgerðum gegn rýrnun skattstofns og tilfærslu hagnaðar.

Vinna við aðgerðaáætlunina hófst í júlí 2013 en markmið hennar er að finna lausnir til að vinna gegn þróun sem orðið hefur, einkum meðal fyrirtækja sem starfa á alþjóðavettvangi, þar sem skattaskipulagning er með þeim hætti að skattgreiðslur fyrirtækjanna verða mjög lágar ef þá einhverjar. Þetta er unnt að gera með því að nýta sér glufur sem fyrirfinnast í mismunandi skattareglum einstakra ríkja í samspili við tvísköttunarsamninga.  Þetta leiðir til þess að tilfærsla verður á hagnaði fyrirtækjanna, þá einkum frá háskattasvæðum til lágskattasvæða og ríki, þar sem hagnaðurinn myndast og ætti því að skattleggjast, verða oft af miklum skatttekjum. 

Skattyfirvöld fá heildarmynd 


BEPS aðgerðaráætlunin skiptist í 15 hluta þar sem í upphafi voru skilgreindir þeir þættir sem finna þurfti lausn á. Tillögurnar sem kynntar eru í lokaskýrslunni snúa ýmist að innanlandslöggjöf ríkja og/eða breytingum á orðalagi tvísköttunarsamninga. Þar má nefna breytingar á upplýsingagjöf milli landa í tengslum við milliverðlagningu (transfer pricing) sem lúta að því að skattyfirvöld munu í fyrsta sinn geta fengið heildarmynd yfir starfsemi stórra alþjóðlegra fyrirtækja í stað þess að hafa eingöngu aðgang að upplýsingum sem lúta að starfseminni í þeirra eigin ríki. Lagðar eru til breytingar á orðalagi tvísköttunarsamninga til að koma í veg fyrir misnotkun á þeim og misbeitingu á notkun eignarhaldsfélaga í skattalegum tilgangi. Í þessu sambandi er sérstaklega horft til skattaframkvæmdar á sviði hugverkaréttar og reglna um skattlagningu rafræna hagkerfisins. Skipst verður á upplýsingum um bindandi álit og betrumbættar verða aðferðir til að komast að samkomulagi þegar ágreiningur er milli ríkja um skattlagningarrétt. Síðan þarf að gæta þess að baráttan við að koma í veg fyrir tvískattlagningu tekna leiði ekki til þess að engin skattlagning fari fram.    

Í BEPS aðgerðaráætlunni eru einnig lagðar fram endurskoðaðar leiðbeiningar á reglum um milliverðlagningu sem vinna gegn notkun svokallaðra „cash boxes“ sem sett eru upp í því skyni að koma hagnaði fyrir í lágskattaríkjum. Hugtakið „raunverulegur eigandi“ er endurskilgreint til að koma í veg fyrir skattaskipulagningu sem hefur það markmið að komast hjá því að starfsemi fyrirtækis/félags teljist vera skattskyld með því að beita skilgreiningum sem eiga ekki lengur við. 

Margvíslegar leiðbeiningar til stjórnvalda


BEPS inniheldur margvíslegar leiðbeiningar til stjórnvalda um innleiðingu nýrra lagaákvæða sem m.a. lúta að því að styrkja reglur um CFC skattlagningu (skattlagning vegna eignarhalds á lágskattasvæðum), sameiginlegri aðferð til að koma í veg fyrir eyðingu skattgrunns með óhóflegum vaxtafrádrætti og nýjum reglum sem eiga að koma í veg fyrir misbeitingu þegar ríki skilgreina fjármagnstekjur með mismunandi hætti. 

Unnið er að því þróa marghliða samning sem mun gera það að verkum að ríki geta tekið upp ný ákvæði í tvísköttunarsamninga sína án þess að þurfa að semja við hvert og eitt samningsríki. Stefnt er að því að slíkur samningur verði tilbúinn til undirritunar á næsta ári.

Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis mun fara fram vinna við að kanna hvernig niðurstöður skýrslu OECD samræmast íslenskri skattalöggjöf og hvar úrbóta kann að vera þörf. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum