Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Athygli vakin á öryggi rafrænna skilríkja

Rafræn skilríki og öryggi
Rafræn skilríki og öryggi

Undanfarna daga hefur athygli verið vakin á mikilvægi rafrænna skilríkja í auglýsingum sem birst hafa í dagblöðum.

Ríkisskattstjóri, Tollstjóri og fjármála- og efnahagsráðuneytið standa að auglýsingunum. Þar er bent á að netárásir á vefsíður séu mikið áhyggjuefni og því þurfi að gæta fyllstu varúðar. Mikilvægt sé að nota öruggasta auðkennið sem völ er á. 

Rafræn skilríki hafi í úttekt sérfræðinga verið metin öruggst en öryggið felist ekki síst í því að lykilorð eru hvergi geymd miðlægt.

Rafræn skilríki fást bæði á debetkortum og í farsíma og eru auðveld í notkun. Fólk er hvatt til að auðkenna sig inn á vefsíður með rafrænum skilríkjum, að því er segir í auglýsingunni.

Þarf að gæta fyllsta öryggis

Þá er fjallað um rafræn skilríki í leiðara nýs tölublaðs Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra. Þar segir m.a. að á næstu árum muni rafræn þjónusta ríkisskattstjóra verða aukin svo eftir verði tekið ef áætlanir ganga eftir. Blikur séu þó á lofti sem stofnanir verði að bregðast við. Horfast þurfi í augu við að rafræn þjónusta verði ekki aukin nema fyllsta öryggis sé gætt í samskiptum.

Ríkisskattstjóri hafi hvatt viðskiptavini embættisins til að nota rafræn skilríki við innskráningu á þjónustusíðu þess, þar sem persónuleg gögn viðkomandi eru geymd, frekar en veflykil ríkisskattstjóra. Veflykillinn muni á næstu árum heyra sögunni til, eins og raunar flestir aðrir veflyklar.

„Það sem mestu máli skiptir er að öryggi sé fyrir hendi. Notkun rafrænna skilríkja er öruggasti samskiptamátinn. Þeim fylgja engin leyniorð – misflókin og langoftast með endurtekinni notkun – heldur aðeins pin-númer sem slegið er inn þegar rafrænt skilríki opnar fyrir aðgang," segir m.a í leiðara Tíundar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum