Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Niðurstöður umfjöllunar AGS um íslensk efnahagsmál

Framkvæmdastjórn AGS hefur nú lokið reglubundinni umfjöllun sinni um stöðu efnahagsmála á Íslandi og birt niðurstöður sínar og skýrslur starfsmanna sjóðsins af því tilefni.

Áherslur sjóðsins eru í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að aflétta gjaldeyrishöftum og ná jöfnuði í ríkisfjármálum.

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur að náðst hafi góður árangur við að komast frá þeim mikla vanda sem hrunið árið 2008 hefur haft í för með sér og telur að áfram stefni í rétta átt. Hún leggur áherslu á að tekist verði á við afléttingu gjaldeyrishaftanna með heildstæðum hætti og er það í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar.

Árangur í opinberum fjármálum hefur verið í andbyr meðal annars vegna minni hagvaxtar en gert var ráð fyrir, útgjaldavaxtar og vegna þess að tekjur af arðgreiðslum og sölu eigna hafa verið minni en búist var við.  Sjóðurinn telur að stjórnvöld eigi ekki að víkja frá því markmiði að ná jöfnuði í fjármálum hins opinbera árið 2014 og að áframhaldandi bati í afkomunni þurfi að byggjast á varanlegum aðgerðum.  Sjóðurinn lýsir yfir ánægju sinni með stofnun hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar og leggur áherslu á að frumvarp um opinber fjármál verði að lögum til að auka ábyrgð og festu í meðferð opinberra fjármuna.

Stjórn sjóðsins telur að varlega þurfi að fara í frekari aðgerðum í skuldamálum heimilanna þannig að þær leggist ekki á ríkissjóð nema svigrúm sé fyrir hendi. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að tryggja eftirlit með fjármálastarfsemi  og stöðugleika í umhverfi hennar. Þá leggur stjórnin til að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði endurskoðuð.

Fréttatilkynning AGS - lauslega þýdd

Umfjöllun á vef Seðlabanka Íslands

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum