Hoppa yfir valmynd
22. maí 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Rökstutt álit ESA vegna gengistryggðra lána

Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur borist rökstutt álit ESA vegna veitingar gengistryggðra lána í íslenskum krónum.

Í álitinu er komist að þeirri niðurstöðu að allsherjarbann við gengistryggingu standist ekki 40. gr. EES-samningsins varðandi frjálst flæði fjármagns á grundvelli þeirrar meginforsendu að bannið fæli íslenskar fjármálastofnanir frá því að fjármagna lán sín í öðrum myntum en íslenskum krónum. ESA telur að lögmætt geti verið að takmarka veitingu gengistryggðra lána til neytenda en álítur að algert bann við veitingu slíkra lána til einstaklinga og fyrirtækja gangi lengra en nauðsynlegt er.

Stjórnvöld hafa á fyrri stigum málsins, síðast með bréfi frá 17. ágúst 2012, gert stofnuninni grein fyrir þeirri afstöðu sinni að bannið feli ekki í sér hindrun á flæði fjármagns milli Íslands og annarra EES-ríkja. Í bréfinu benda íslensk stjórnvöld m.a. á að reglur um heimildir til verðtryggingar taki ekki til lána í erlendri mynt og hafi því hvorki áhrif á erlenda fjármögnun bankanna né eftirspurn eftir erlendum lánum hér á landi.

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að áður en fjármagnshöft verða losuð að fullu verði settar varúðarreglur með það fyrir augum að draga úr áhættu fyrir fjármálakerfið sem fylgir óheftum fjármagnshreyfingum og er þá einkum vísað til áhættu sem felst í gjaldmiðla- og gjalddagamisræmi. Ekki liggur þó fyrir hvenær fjármagnshöftum verður aflétt en ljóst þykir að framgangur áætlunar um losun þeirra er að verulegu leyti kominn undir því að útgreiðslum búa gömlu bankanna verði komið í fastan farveg og að innlendir aðilar njóti greiðari aðgangs að erlendum lánsfjármörkuðum en nú er.

Ennfremur hefur Seðlabanki Íslands lagt áherslu á, með hliðsjón af fjármálastöðugleika, að hafa verði reglurnar þannig að áhætta lántaka, lánveitanda og þjóðarbúsins í heild sé takmörkuð og ásættanleg. Bankinn telur að eitt af því sem til greina komi sé að banna erlend lán til sveitarfélaga, heimila og annarra sem ekki hafa gjaldeyristekjur eða tekjur sem tengjast gengi erlendra gjaldmiðla.

Íslensk stjórnvöld telja með hliðsjón af ábendingum Seðlabankans og því að undirbúningur að smíði varúðarreglna er á upphafsstigi að ekki sé tímabært að rýmka heimildir til töku gengistryggðra lána. Við þá vinnu lýsa stjórnvöld sig aftur á móti reiðubúin til þess að athuga hvort verndarhagsmunirnir standi til þess að heimildir til töku gengistryggðra lána verði gerðar hliðstæðar þeim sem gilda eiga um erlenda lántöku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum