Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staða opinberra fjármála á Íslandi í alþjóðlegum samanburði

Frumjöfnuður hins opinbera á Íslandi verður 2,5% af landsframleiðslu (VLF) í ár og hefur batnað um 9% af landsframleiðslu frá árinu 2009. Þetta er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en á vorfundi sjóðsins í Washington um helgina var kynnt skýrsla um stöðu opinberra fjármála í aðildarríkjum hans.

AGS skoðaði stöðuna í ár í 30 þróuðum ríkjum, m.a. frumjöfnuð, sem er jöfnuður tekna og gjalda að fjármagnstekjum og –gjöldum undanskildum. Aðeins í þremur ríkjanna er frumjöfnuður hærra hlutfall af landsframleiðslu en hér á landi: Í Noregi, Singapor og á Ítalíu. Af öðrum ríkjum með jákvæðan frumjöfnuð má nefna Þýskaland, þar sem hann verður 1,8% af landsframleiðslu.

Frumjöfnuður ríkjanna 30 er að meðaltali -3,0% af landsframleiðslu. Í Japan verður hann        -9.0% af landsframleiðslu og -5,0% í Bretlandi. Í Bandaríkjunum er þessi tala -4,6%. Svíþjóð, Finnland og Danmörk verða öll með neikvæðan frumjöfnuð á árinu.

AGS skoðar einnig heildarjöfnuð ríkjanna, en heildarjöfnuður er mismunur á heildartekjum og heildargjöldum.  Sjóðurinn metur stöðuna á Íslandi þannig að heildarjöfnuður hér á landi verði neikvæður um sem nemur 1,3% af VLF. Af löndunum 30 eru aðeins sex með jákvæðan heildarjöfnuð, sem þýðir að hið opinbera tekur til sín fjármuni úr hagkerfum þessara landa.  Annars staðar bætir opinberi geirinn inn í hagkerfin. Meðaltalið er 4,7% af landsframleiðslu ríkjanna 30. Hlutfallslega er innspýtingin mest í Japan, 9,8% af landsframleiðslu, en í Bretlandi er heildarjöfnuður neikvæður um 7% og um 6,5% í Bandaríkjunum.

Umfang hins opinbera hæst í Danmörku

Í skýrslu AGS eru einnig upplýsingar um umfang hins opinbera í aðildarríkjunum. Meðalútgjöld ríkjanna 30 eru 42,2% af VLF, en hér á landi eru þau 45,0% að mati AGS.  Hið opinbera tekur til sín stærstan hluta af landsframleiðslunni í Danmörku, 57,6% en Frakkland fylgir fast á eftir með 56,6%. Í Austurríki, Belgíu, Finnlandi, Ítalíu, Hollandi og Svíþjóð er hlutfall opinberra útgjalda yfir helmingur landsframleiðslu.

AGS metur brúttóskuldir ríkjanna 30 sem 109% af landsframleiðslu þeirra í ár. Á þennan mælikvarða er Ísland með 91,9% brúttóskulda af landsframleiðslu. Allmörg ríki eru þó með hærri brúttóskuldir hins opinbera. Þar má nefna Japan með 245%, Grikkland með 179%, Ítalíu með 131% og Írland og Portúgal með 122%. Í Bandaríkjunum er skuldahlutfallið 108% af landsframleiðslu og 93,6% í Bretlandi.

Séu nettóskuldir skoðaðar breytist myndin töluvert. Nettóskuldir eru taldar munu nema 78,1% af landsframleiðslu ríkjanna 30. Finnland, Svíþjóð og Noregur eru einu ríkin með neikvæða nettóskuld og í Danmörku er hún rúmlega 10% af VLF.

Skuldahlutfall Íslands lægra en í Bretlandi og Bandaríkjunum


Skuldahlutfall Íslands fellur niður í 62,2% af VLF og er lægra en t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þótt Íslendingar eigi á næstu árum verk fyrir höndum við að standa við opinberar skuldbindingar eru margar þjóðir verr staddar hvað þetta varðar. Hér er ennfremur ótalinn hlutur lífeyrissjóðanna sem víða hvíla að öllu leyti á skattborgurum framtíðarinnar en hér á landi gildir þetta aðeins um hluta opinberra starfsmanna. Lífeyrisskuldbindingar eru ekki teknar með í tölum AGS.

Skýrsla AGS um stöðu opinberra fjármála í 30 ríkjum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum