Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tillaga að skattafsláttarkerfi til kynningar hjá ESA

Undanfarna mánuði hafa sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins að beiðni ráðherra unnið að útfærslu á skattafsláttarkerfi fyrir einstaklinga. Kerfinu er ætlað að styðja við lítil fyrirtæki í vexti. Slíkt kerfi þarf að standast ríkisstyrkjareglur EES samningsins og verður útfærð tillaga að því send Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, til kynningar á næstu dögum. Tillagan er í meginatriðum svipuð skattívilnunarkerfi sem í gildi er í Bretlandi og á Írlandi.

Meginmarkmið tillögunnar er að stuðla að aukinni fjárfestingu í litlum fyrirtækjum í vexti og fjölga þannig störfum.  Kerfið felur í sér skattafslátt til einstaklinga sem kaupa hlutabréf í slíkum fyrirtækjum. Skilyrði er að þau séu óskráð og stundi starfsemi á Íslandi. Með litlum fyrirtækjum er átt við fyrirtæki sem hafa færri starfsmenn en 50 og veltu undir 1,6 milljarði króna. Samkvæmt tillögunni er hámarksfjárfesting á hvert fyrirtæki sem veitir skattafslátt 100 milljónir króna á ári og 500 milljónir króna samtals.

Í tillögunni er miðað við að einstaklingar sem fjárfesta í hlutabréfum í litlum óskráðum fyrirtækjum að hámarki 5 m.kr og að lágmarki 50 þús.kr. á ári fái 30% af þeirri fjárfestingu frádregna frá skattskyldum tekjum áður en til skattlagningar kemur. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall verði 40% ef viðkomandi fyrirtæki er staðsett á landsbyggðinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að einstaklingum verði heimilt að kaupa hluti í fjárfestingasjóðum sem fjárfest hafa eingöngu í litlum óskráðum fyrirtækjum.  

Tillagan fer nú til kynningar hjá ESA. Skattafsláttarkerfi eins og þetta eru tilkynningaskyld til ESA og ekki er heimilt að hrinda þeim í framkvæmd fyrr en samþykki stofnunarinnar liggur fyrir.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum