Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðherra í viðtali við Newsnight: Líklegt að allar forgangskröfur fáist greiddar úr þrotabúi Landsbankans

Katrin-newsnight-
Katrin-newsnight-

Með niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu höfum við fengið endanlegan úrskurð um lögfræðilegt álitaefni. Mikilvægt er að óháð niðurstöðu dómsins mun þrotabú Landsbankans halda áfram að greiða út forgangskröfur vegna Icesave-reikninganna. Þetta kom m.a. fram í máli Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali við breska fréttaþáttinn Newsnight á BBC í gærkvöldi.

Í þættinum var farið yfir stöðu Icesave-málsins í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins í gær, en þar var Ísland sýknað af kröfum ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Katrín benti meðal annars á að þrotabú bankans hefði þegar greitt um 50% forgangskrafna. Vonir stæðu til þess að  allar forgangskröfur yrðu greiddar og það væri gott fyrir alla málsaðila.

„Ég tel að það besta við dóm EFTA sé að nú er búið að ryðja úr vegi óvissuþætti. Við getum nú haldið áfram veginn,“ sagði ráðherra meðal annars í viðtalinu við Newsnight.

Ráðherra tók fram að Icesave-málið hefði reynst þungbær en mikilvægur lærdómur. Síðastliðin fjögur ár hefðu Íslendingar unnið að því að styrkja regluverk kringum fjármálakerfið með það að markmiði að koma í veg fyrir að svipaðir atburðir og þeir sem urðu 2008 gætu endurtekið sig.

KatrinJ-newsnight

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum