Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum lagt fram á Alþingi

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frumvarpið lýtur að tekjuöflunaraðgerðum, kjarasamningum, verðlagsbreytingum og fleiru.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að heildaráhrif þess á einstaklinga og fyrirtæki ættu að vera jákvæð fremur en hitt og tiltölulega almenn. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu eftir hrunið haustið 2008 hafi þegar á heildina er litið skilað tilætluðum árangri. Það sjáist best á því að tekjuáætlanir fjárlaga hafi í stórum dráttum gengið eftir.

„Þá eru tekjuhorfur fyrir yfirstandandi ár góðar og raunar talsvert betri en reiknað hafði verið með við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2012. Tekjuhliðin hefur því átt mikilvægan þátt í því að draga úr miklum hallarekstri ríkissjóðs í kjölfar hrunsins og þar með að skapa sterkan grundvöll undir jákvæða afkomu ríkissjóðs til framtíðar,“ segir í athugasemdunum

„Við undirbúning fjárlagavinnunnar fyrir árið 2013, sem hófst snemma árs 2012, var þó
fljótt ljóst að markmiði stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum yrði ekki náð nema með
frekari tekjuöflunaraðgerðum eða áframhaldandi niðurskurði ríkisútgjalda til viðbótar þeim
sem þegar hefur verið gripið til síðastliðin fjögur ár. Umfang þeirra aðgerða er þó sýnu
minna en fyrri ár og byggist á því meginmarkmiði að afkoma ríkissjóðs verði jákvæð á árinu
2014.“

Í athugasemdunum er farið yfir breytingar sem ættu að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna. Þar á meðal er nettólækkun tryggingagjalds, sem leiði til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja. Það geri þau betur í stakk búin til að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum.

„Sama má segja um hærri barnabætur, frekari útgreiðslur séreignarsparnaðar, framlengingu hækkunar á vaxtabótum og 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna íbúðarhúsnæðis. Þegar allt er lagt saman ættu þær skattbreytingar sem kynntar eru í þessu frumvarpi að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 2013 og þar með eftirspurn í hagkerfinu.“

„Áhrif hækkana á krónutölugjöldum og gjaldskrám koma fyrst og fremst fram í hærra verðlagi. Sama gildir um hækkun tóbaksgjalds. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Gangi það mat eftir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna minnka samsvarandi, eða um 0,2%. Rétt er að hafa í huga að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu og breytingar á vörugjöldum bílaleigubifreiða hafa óveruleg áhrif á vísitölu neysluverðs,“ segir m.a. í athugasemdum með frumvarpinu. 

Frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum