Hoppa yfir valmynd
17. október 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Athugasemdir vegna skýrslu um sértekjur ríkisaðila

Út er komin skýrsla á vegum Ríkisendurskoðunar um sértekjur ríkisaðila. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu var gefinn kostur á að gera athugasemdir við skýrsluna þegar hún lá fyrir í drögum. Í skýrslunni eru birtar úrklippur úr athugasemdum ráðuneytisins. Athugasemdirnar í heild fylgja hér með til að fyrir liggi fyllri og betri mynd af mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins á ábendingum Ríkisendurskoðunar.
 
Í skýrslunni er fjallað um að sértekjur hafi yfirleitt verið talsvert vanmetnar í áætlunum fjárlaga á undanförnum árum miðað við niðurstöður ríkisreiknings. Þetta hefur lengi verið þekkt vandamál í fjárlagagerðinni. Ástæðan fyrir því er að öllum líkindum einna helst sú að áætlaðar veltubreytingar sem fjármagnaðar eru með sértekjum hafa engin áhrif á það hversu mikið beint framlag stofnanir fá úr ríkissjóði í fjárlögum. Hins vegar er líka ljóst að frávik skýrast að miklu leyti af fáum stórum liðum, sem að hluta tengjast innbyrðis viðskiptum stofnana, og einnig sjóðum og verkefnum sem ekki falla undir stofnanarekstur.
 
Í athugasemdum sínum tekur fjármála- og efnahagsráðuneytið undir þá ábendingu að bæta þurfi þennan þátt í árlegri fjárlagagerð ráðuneyta og stofnana en gerir jafnframt ýmsar ábendingar um það sem fram kemur í skýrslunni.

Athugasemdir fjármála- og efnahagsráðuneytisins við skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum