Hoppa yfir valmynd
19. júní 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar - apríl 2012

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 167,5 ma.kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins. 

Það er 16,6% aukning frá sama tímabili í fyrra og 14,7 ma.kr. eða 9,6% yfir tekjuáætlun fjárlaga. Þótt innheimtan sé vissulega sterk má að hluta rekja þetta mikla frávik til óreglulegra tekna sem féllu til á tímabilinu og ekki hafði verið reiknað með við gerð tekjuáætlunar. Skatttekjur og tryggingagjöld jukust um 15,5% á milli ára og námu 154,5 ma.kr. sem er 10,6 ma.kr. yfir áætlun. Þar af nam tekjuskattur einstaklinga 36,6 mö.kr. sem er 19,8% aukning á milli ára og 9,5% yfir áætlun. Samanlögð skil launagreiðenda á bæði tekjuskatti og útsvari jukust um rúm 18% á milli ára og því er ljóst að skattstofn tekjuskatts hefur styrkst umtalsvert á undanförnum mánuðum, sem að hluta má rekja til kjarasamninga sem tóku gildi síðasta sumar.

  • Fjármagnstekjuskattur dróst saman um þriðjung á milli ára og nam 11,6 ma.kr. sem er 3,3 ma.kr. undir áætlun. 
  • Tekjur af tryggingagjaldi jukust um 4,2% á milli ára og námu 21,3 ma.kr. sem er 7,5% meira en áætlað var. Tryggingagjaldsprósentan er lægri í ár en í fyrra en þrátt fyrir það hefur innheimtan aukist á milli ára. Skýringin er sú að heildarlaunastofn í janúar-mars er 13% hærri í ár en í fyrra, sem er umtalsvert meiri vöxtur en reiknað var með við gerð tekjuáætlunar. 
  • Tekjur af eignarsköttum, að frátalinni sérstakri greiðslu frá lífeyrissjóðum,námu 2,9 ma.kr. samanborið við áætlun upp á 3,5 ma.kr. Þar af voru auðlegðar- og erfðafjárskattur undir áætlun en stimpilgjöld yfir áætlun.
  • Tekjur af vörugjöldum af ökutækjum jukust um rúm 70% á milli ára og námu 1,2 ma.kr. sem er í takt við tekjuáætlun enda hefur innflutningur bifreiða aukist verulega síðastliðin misseri. 
  • Aðrar tekjur jukust um ríflega fjórðung á milli ára og námu 11,7 ma.kr. sem er 3,2 ma.kr. yfir áætlun. Það frávik má að mestu tekja til 1,8 ma.kr. arðgreiðslu frá Landsvirkjun og sömuleiðis 1 ma.kr. söluhagnaðar vegna gjaldeyrisútboða Seðlabankans sem haldin voru sumarið 2011 og í febrúar sl. Ekki hafði verið gert ráð fyrr þessum tekjum í tekjuáætlun tímabilsins janúar-apríl.

Greidd gjöld námu 171,9 ma.kr. og jukust um 14,3 ma.kr. frá fyrra ári,eða um 9,1%. Greidd gjöld voru innan fjárheimilda tímabilsins um 4,5 ma.kr. eða 2,6%.Vaxtagjöld ríkissjóðs jukust um 3 ma.kr. milli ára en voru í jafnvægi við fjárheimildir ársins.

  • Útgjöld til almennrar opinberrar þjónustu jukust um 1,1 ma.kr. milli ára en voru í jafnvægi við fjárheimildir ársins. Aukningin milli ára skýrist að mestu með greiðslum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. 
  • Útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála jukust um 2,8 ma.kr. milli ára en voru lítillega innan heimilda. Frávikið skýrist að stærstu leyti með greiðslum vegna Lífeyristrygginga og bóta samkvæmt laga um félagslega aðstoð, en áhrif kjarasamninga síðasta árs hafa þarna mikil áhrif.
  • Útgjöld til heilbrigðismála jukust um 1,9 ma.kr. milli ára en voru um 1 ma.kr. innan áætlana. 
  • Útgjöld til efnahags- og atvinnumála jukust milli ára um 1,1 ma.kr. en voru 2,9 ma.kr. innan heimilda. 
  • Útgjöld til menntamála voru 2,4 ma.kr. hærri en á sama tímabili í fyrra en 1,1 ma.kr. innan fjárheimilda tímabilsins. Aukningin milli ára skýrist að mestu með útgjöldum Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem jukust um tæpa 2 ma.kr. milli ára sem var í samræmi við áætlun. Útgjöld til menningar-, íþrótta- og trúmála voru 408 m.kr. hærri en á sama tímabili í fyrra en voru í jafnvægi við fjárheimildir tímabilsins. 
  • Útgjöld til löggæslu, réttargæslu og öryggismála jukust um 986 m.kr. milli ára og voru jafnframt 496 m.kr. umfram heimildir tímabilsins. 
  • Útgjöld til umhverfisverndar eru 130 m.kr. hærri í ár en á sama tíma í fyrra en voru 207 m.kr. innan áætlana. 
  • Útgjöld til varnarmála drógust saman um 149 m.kr. og voru jafnframt 137 m.kr. innan heimilda tímabilsins. 
  • Útgjöld til húsnæðis- skipulags- og veitumála drógust lítillega saman milli ára eða um 73 m.kr. og voru að mestu í jafnvægi við heimildir
  • Óregluleg útgjöld jukust um 685 m.kr. milli ára og voru jafnframt 1,1 ma.kr. umfram fjárheimildir.

 Lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs

Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 11,8 ma.kr. á fyrsta ársþriðjungi en á sama tíma í fyrra var lánsfjárjöfnuðurinn neikvæður um 10,9 ma.kr. Afborganir af lánum ríkissjóðs námu 78,6 ma.kr., þar af voru 77,1 ma.kr. vegna erlendra lána.

Nánari útskýringar á ríkisreikningi má lesa hér. 

Frekari upplýsingar veitir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, síma 545-9243

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum