Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hluthafasamkomulög í tengslum við eignarhald á stóru viðskiptabönkunum þremur

Um miðjan október 2011 barst beiðni til fjármálaráðuneytisins þar sem óskað var eftir aðgangi að hluthafasamkomulögunum í tengslum við hlutafjáreign í Landsbankanum hf., Íslandsbanka hf. og Arion banka hf., milli íslenska ríkisins annars vegar og gömlu bankanna hins vegar. Stefna fjármálaráðuneytisins er að birta allar upplýsingar sem varða með einhverjum hætti ráðstöfun ríkisfjármuna þegar kostur er. Samningarnir eru því birtir hér.

Haustið og veturinn 2009 voru gerðir hluthafasamningar í tengslum við hlutafjáreign í Landsbankanum hf., Íslandsbanka hf. og Arion banka hf., milli íslenska ríkisins annars vegar og gömlu bankanna hins vegar. Helstu atriði samninganna voru birt í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna sem lögð var fyrir Alþingi í mars 2011 (sjá bls. 40, 52 og 67). Hlutafjárframlög ríkisins vegna bankanna þriggja nema um 135 ma.kr., á móti 156 ma.kr. hlutafjárframlagi annarra hluthafa.

Um miðjan október 2011 barst beiðni til fjármálaráðuneytisins þar sem óskað var eftir aðgangi að hluthafasamkomulögunum í heild sinni. Ráðuneytið lagði mat á eðli þeirra upplýsinga sem fram koma í efni hluthafasamkomulaganna, m.t.t. upplýsingalaga,  þar sem upplýsingarnar höfðu ekki verið birtar áður. Einnig er rétt að árétta að stjórnvöldum er óheimilt skv. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að veita aðgang að upplýsingum sem varða viðskipta- og fjárhagsmálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, án ótvíræðs samþykkis þess sem í hlut á, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila.

Því óskaði ráðuneytið eftir afstöðu annarra hluthafa og bankanna sjálfra, með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, til þess að veittur yrði aðgangur að umræddum skjölum í heild sinni. Ráðuneytinu hafa  nú borist svör frá hluthöfum og bönkunum sem um ræðir og eru samningarnir birtir hér.

Almennt um hluthafasamkomulög

Ekki er lögbundið að hluthafar geri með sér samkomulag í tengslum við eignarhald á hlutum í hlutafélagi og almennt eru slíkir samningar ekki opinberir. Til samanburðar eru t.a.m. samþykktir félaga aðgengilegar hjá hlutafélagaskrá. Í hluthafasakomulagi kann að vera kveðið á um skiptingu eignarhluta, um réttindi og skyldur hluthafa, t.a.m. vernd minni hluthafa gagnvart stærri hluthöfum, og um rekstur, viðskipti og stjórn viðkomandi félags.

Kostir þess að gera hluthafasamkomulög eru t.a.m. að með þeim má koma í veg fyrir deilur milli hluthafa, ákveða hvernig stjórn félags skuli háttað, fjármögnun þess, hvernig nýir hluthafar geti komið að félaginu, takmarkanir á sölu hlutafjár o.fl.


Samningarnir í heild sinni

      o  Sjá einnig breytingu á ákvæði 14.4(a)

     o  Upplýsingar sem varða tiltekin viðskipta- og fjárhagsmálefni hluthafa í greinum 1.1, 5.1, 9.4 og 9.6 hafa verið fjarlægðar í samræmi við ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða ákvæði er varða hluthafavernd annars vegar og  verð kaupréttar hins vegar.

Sjá einnig:

Greinargerð um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Umræður á Alþingi um skýrslu fjármálaráðherra

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum