Hoppa yfir valmynd
15. desember 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

ESA rannsakar ríkisaðstoð

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í dag tilkynnt íslenskum stjórnvöldum um að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að taka til formlegrar rannsóknar ráðstafanir íslenska ríkisins í tengslum við stofnun og fjármögnun íslensku viðskiptabankanna Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Bankarnir þrír voru sem kunnugt er stofnaðir í október 2008 í kjölfar falls gömlu viðskiptabankanna. Snúast rannsóknirnar um mat á ríkisaðstoð vegna endurskipulagningar bankanna þriggja.

Rétt er að geta þess að með opnun formlegra rannsókna á bönkunum sker ESA ekki úr um  lögmæti ráðstafana íslenska ríkisins vegna endurskipulagningarinnar, heldur er hér um að ræða aðgerð til að tryggja rétta málsmeðferð af hálfu ESA og skapa réttarvissu um niðurstöðu máls sem á sér ekki hliðstæðu á evrópska efnahagssvæðinu.

Líkt og fram kemur í fréttatilkynningu ESA, segir forseti ESA, Per Sanderud, að ástand sem skapaðist í íslensku efnahagslífi haustið 2008 og árið 2009 hafi verið fordæmalaust. Lýsir Sanderud því yfir að stofnunin hafi skilning á því að aðgerðir íslenska ríkisins hafi verið nauðsynlegar vegna þessa til að tryggja fjármálastöðugleika.

Sjá nánar fréttatilkynningu ESA hér meðfylgjandi.

Nánari upplýsingar um málið veitir Tryggve Mellvang-Berg, upplýsingafulltrúi ESA, sími: 0032 02 286 1866, gsm : 00 32 0492 900187 [email protected] og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fjölmiðlafulltrúi fjármálaráðuneytisins, 
gsm 824-6743, [email protected].

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum