Hoppa yfir valmynd
31. mars 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tilkynning frá fjármálaráðuneytinu um endurgreiðslu stimpilgjalda af aðfarargerðum

Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. nóvember 2009, í máli nr. 255/2009, var staðfest að sýslumann hefði skort lagaheimild til að krefjast greiðslu stimpilgjalds við þinglýsingu á endurriti fjárnámsgerðar í mars 2008.

Þann 1. janúar 2009 tóku gildi breytingar á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, er veittu gjaldtöku vegna þinglýsingar fjárnámsgerða lagagildi.

Með vísan til framangreinds hefur fjármálaráðuneytið ákveðið að endurgreiða þau stimpilgjöld sem oftekin voru fyrir 1. janúar 2009 og ófyrnd voru við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar, þ.e. á tímabilinu frá og með 12. nóvember 2005 til 1. janúar 2009.

Ráðuneytið mun hafa frumkvæði af því að endurgreiða öllum þeim sem skráðir eru í þinglýsingakerfi sýslumanna og mun sú endurgreiðslan berast á næstu dögum. Skráningarkerfi sýslumanna hefur ekki upplýsingar um allar aðfarargerðir þar sem rafræn skráning þessara upplýsinga hófst á mismunandi tíma á tilgreindu tímabili. Skorar því ráðuneytið á þá gjaldendur sem kunna að eiga ófyrndar kröfur vegna ofgreiddra stimpilgjalda, sem ekki fá endurgreitt á næstu dögum, að snúa sér til sýslumanna og framvísa viðhlítandi gögnum, frumriti eða kvittun um greiðslu. Sérstaklega bendir ráðuneytið á aðfaragerðir frá eftirfarandi tímabili:

  • Vegna skipa: Frá 12. nóvember 2005 til 9. apríl 2008.
  • Vegna lausafjár: Frá 12. nóvember 2005 til 14. apríl 2008.
  • Vegna bíla: Frá 12. nóvember 2005 til 25. mars 2007.


Nær rétturinn til endurgreiðslu stimpilgjalds af endurritum vegna fjárnáma, sem og af stimplun kyrrsetningargerða og löggeymslu.

Ráðuneytið bendir á að gerðarþoli hefur í einhverjum tilvikum verið endanlegur greiðandi stimpilgjaldsins þó greiðandi samkvæmt skjali hafi verið gerðarbeiðandi. Hafi svo verið á gerðarþoli í einhverjum tilvikum endurkröfurétt á viðtakanda endurgreiðslunnar.

Fjármálaráðuneytinu, 31. mars 2010



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum