Hoppa yfir valmynd
25. mars 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árétting vegna ummæla Talsmanns neytenda

Talsmaður neytenda hefur á heimasíðu sinni birt allsérstæða túlkun á skattalögum hvað varðar afskriftir eða niðurfærslu skulda.

Sú túlkun er fullkomlega í andstöðu við skýr ákvæði skattalaga, sem verið hafa í gildi áratugum saman svo og skattframkvæmd. Réttarfar í málum sem varða álagningu skatta er skipað með þeim hætti að álitamál og ágreining er unnt að leggja undir yfirskattanefnd til ákvörðunar og síðan undir dómstóla ef svo ber undir. Lítil réttarbót er í því að alls óskyld stjórnvöld blandi sér í þann feril.

Eins og kunnugt er hefur fjármálaráðuneytið unnið að undirbúningi lagareglna sem fela það í sér að afskrift skulda einstaklinga verði ekki talin til skattskyldra tekna í ákveðnum tilvikum til viðbótar við þau frávik sem þegar eru í lögum og rýmka þannig gildandi reglur. Væri afstaða Talsmanns neytenda rétt er slík löggjöf þarflaus því skattyfirvöld, yfirskattanefnd og dómstólar myndu taka ákvarðanir sínar á grundvelli gildandi laga. Fjármálaráðuneytið álítur hins vegar lagatúlkun Talsmanns neytenda ranga og hún tryggi ekki eðlilega hagsmuni skattborgaranna. Það telur auk þess að í þessu efni þurfi að ríkja skýrar reglur þannig að ekki þurfi að koma til málareksturs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum