Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðherrafundur í OECD

Ráðherrafundur OECD 2009 fór fram í höfuðstöðvum samtakanna í París dagana 24. og 25. júní sl. Ráðherrafundurinn var fjölsóttur og sóttu hann ráðherrar frá löndunum 30 innan OECD. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sótti fundinn fyrir hönd Íslands. Auk þess var boðið til fundarins sendinefndum frá fimm umsóknarríkjum, Chile, Ísrael, Eistlandi, Rússlandi og Slóveníu og frá öðrum fimm ríkjum sem taka þátt í svokölluðu auknu samstarfi en það eru Brasilía, Kína, Indland, Indónesía og Suður-Afríka. Samtals voru á fundinum um 40 ráðherrar, fulltrúar ríkja sem standa undir 80% af hagkerfi heimsins. Fyrir þessar sakir var fundurinn óvenjulegur og einstakur.

Á fundinum var kynnt efnahagsspá OECD fyrir árin 2009 og 2010 auk þess sem margvísleg gögn tengd efnahagskreppunni voru lögð fram sem umræðugrundvöllur á fundinum. Hinn 24. júní, flutti aðalritari OECD, Angel Gurria, skýrslu um „Langtímastefnu OECD“ og kynnti umbótatillögur OECD vegna kreppunnar „Leiðin til endurreisnar“. Lykilorð tillagnanna eru sterkari, hreinni, réttlátari sem vísa í þær áherslubreytingar sem OECD leggur til við endurreisn hagkerfa eftir kreppuna. Sterkari vísar til reglna og eftirlits á fjármálamörkuðum, hreinni til umhverfis- og útblástursmála, og réttlátari til reglna í viðskiptakerfinu og samstarfs við þróunarríki.

Í umræðum sem fóru fram 25. júní var kynnt sérstök tillaga OECD varðandi umhverfismálin undir heitinu Grænn vöxtur“. Í tillögunni er lögð áhersla á að aðgerðir stjórnvalda vegna kreppunnar taki mið af langtímamarkmiðum um vistvænan vöxt og minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda. Undir þessar tillögur tóku langflest aðildarríkin og töldu mjög mikilvægar. Síðasti liður á dagskrá var helgaður umræðum um milliríkjaviðskipti og er sá hluti fundarins að jafnaði skipaður ráðherrum utanríkisviðskiptamála. Rætt var um mikilvægi þess að aðgerðir stjórnvalda vegna kreppunnar skerði ekki markaðsaðgang og fjárfestingafrelsi. Mikill einhugur var um að samkomulag næðist sem allra fyrst sem gæti tryggt árangursríka niðurstöðu í samningalotunni á vettvangi WTO.

Á fundinum vakti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra m.a. máls á mikilvægi þess að OECD taki þátt í þeirri almennu endurskoðun á gildum og verðmætamati sem óumflýjanleg væru eftir þau efnahagslegu áföll sem orðið hefðu í mörgum aðildarríkjum. Hætta á slíkum áföllum hefði augljóslega verið vanmetin og styrkur hagkerfa reynst miklu minni en talið var. Fjármálaráðherra vék einnig að umhverfismálum og leiðum til að draga úr losun koltvísýrings og stuðla að bindingu hans, svo sem með endurheimt votlendis.

Í lok ráðherrafundarins voru samþykktar skriflegar niðurstöður hans (Ministerial Conclusions) og yfirlýsing um grænan hagvöxt. Skjölin eru að finna hér.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum