Hoppa yfir valmynd
4. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breytingar á lögum um tekjuskatt

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 30. apríl 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þann 15. apríl sl. voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um tekjuskatt með það að markmiði að styrkja skattframkvæmd og vinna gegn skattundanskoti.

Lögfestingu þessara breytinga er ætlað að leiða til aukins jafnræðis en með þeim er dregið úr möguleikum þeirra sem hafa vilja og aðstöðu til þess að velta hlutdeild sinni í kostnaði af samfélaginu yfir á aðra. Þá ætti styrking skattframkvæmdar að leiða til aukinna tekna af tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja.

Helstu efnisatriði laganna eru eftirfarandi:

  • Heimilt verður að skattleggja tekjur félags sem heimilisfesti hefur á ? lágskattasvæði með tekjum íslensks skattaðila sem á eða fer með umráð yfir því félagi. Hér er um að ræða svokallaða CFC-löggjöf (e. Controlled Foreign Corporation) en slík löggjöf er þekkt víða í löndum hins vestræna heims. Markmið hennar er að hamla gegn skattasniðgöngu í því formi að innlendir aðilar flytji eignir sínar og tekjur úr landi í félög sem þeir stofnsetja í lágskattaríkjum án þess að hafa í reynd nokkra starfsemi þar. Félög í virkri atvinnustarfsemi á EES-svæðinu eru undanþegin þessari löggjöf. Með þessu ákvæði verður einnig til framtalsskylda hins íslenska eiganda eða umráðaaðila vegna hinna erlendu félaga, eigna þeirra og tekna. Gert er ráð fyrir að ráðherra birti lista yfir þau lönd sem CFC-löggjöf tekur til.
  • Sjálfvirk upplýsingaskylda banka og fjármálafyrirtækja gagnvart skattyfirvöldum er útvíkkuð frá því sem verið hefur og tekur nú til hvers kyns vaxtaberandi eigna og hvers kyns skulda. Breytingarþessar þjóna margvíslegum tilgangi. Má fyrst nefna bein áhrif á skattlagningu þar sem hvers kyns eignir, skuldir og vaxtagjöld af lánum til íbúðarkaupa eru t.a.m. ráðandi forsenda við ákvörðun vaxtabóta. Breytingarnar hafa einnig mikilvæg áhrif varðandi allt skatteftirlit. Þá má nefna að með sjálfvirkri upplýsingagjöf um lán, skuldir og vaxtagjöld einstaklinga verður unnt að forskrá nær allar upplýsingar sem til þarf fyrir framtal flestra einstaklinga sem ekki stunda atvinnurekstur.
  • Fjármálastofnunum sem starfa hér á landi verður skylt að veita skattyfirvöldum upplýsingar um viðskipti sem íslenskir skattaðilar eiga við útibú þeirra erlendis eða dótturfélög í lágskattaríkjum. Grunur leikur á að eignarhald í félögum hafi verið falið með því að skrá félög á Bresku Jómfrúreyjum eða í öðrum lágskattaríkjum og tekjum þar með skotið undan réttmætri íslenskri skattlagningu.
  • Aðilum sem veita alþjóðlega skattaráðgjöf verður gert skylt að halda skrá yfir viðskiptavini sína sem skattyfirvöldum er heimill aðgangur að. Upplýsingar sem þannig fást munu bæta stöðu skattyfirvalda gagnvart þeim sem ástunda að koma tekjum sínum undan skatti.
  • Eftirgjöf skulda samkvæmt nauðasamningi um greiðsluaðlögun mun ekki teljast til skattskyldra tekna. Þá hefur fjármálaráðherra heimild til að samræma matsferli skuldaeftirgjafar, þannig að uppfyllt séu skilyrði umræddrar undanþágu, í því tilviki þegar eignir eru ekki til fyrir skuldum.

Þess má geta að frumvarpið tók nokkrum breytingum í meðförum þingsins og m.a. var felld brott grein er kvað á um það að aðilar sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi og bera því takmarkaða skattskyldu, skyldu sæta hér skattlagningu vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi. Efnahags- og skattanefnd taldi að skoða þyrfti betur hver áhrif greinin gæti haft á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé og lagði áherslu á að þegar að loknum kosningum yrði, með hliðsjón af tilgangi greinarinnar, haldið áfram að leita leiða sem tryggt gætu íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í vaxtagreiðslum úr landi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum