Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikil lækkun raunlauna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. apríl 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þróun efnahagslífsins hefur verið talsvert neikvæð að undanförnu og ber þar helst að nefna stóraukið atvinnuleysi, gengisfall krónunnar, mikla hækkun verðlags og samdrátt í kaupmætti heimilanna.

Í þessu svartnætti felst þó einn vonarneisti sem tengist sveigjanleika raunlauna. Eins og myndin sýnir hafa raunlaun lækkað um tæp 10% í febrúar 2009 frá sama mánuði á fyrra ári, sem er meiri lækkun en sést hefur í a.m.k. tvo áratugi. Þótt slík þróun sé ekki þægileg er önnur hlið á henni sem er vel þekkt í hagsögu Íslendinga, en hún er sú að þegar illa árar hefur gengið átt það til að falla og verðbólga að aukast. Þegar nafnlaun hækka minna en verðlag eða alls ekki, leiðir það til þess að raunlaunin falla og eftirsóknaverðara verður að ráða fólk til vinnu. Slíkt á sérstaklega við í atvinnugreinum sem framleiða til útflutnings eða eru í samkeppni við innflutning þar sem samkeppnisstaða þeirra hefur batnað mikið í erlendum gjaldmiðli talið.

Við núverandi aðstæður er mikilvægt að endurreisn bankakerfisins gangi hratt og vel fyrir sig svo að fyrirtæki sem sjá sér hag í að taka lán til að auka starfsemina fái möguleika til þess. Þegar það fer að gerast munu hjól efnahagslífsins taka að hreyfast hraðar á ný. Þá er viðbúið að atvinnuleysið taki að minnka og nafnlaun að hækka á ný.

Þróun raunlauna janúar 1989 - febrúar 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum