Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Færri auglýsingar birtar á Starfatorgi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. apríl 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Eftir aukningu á milli áranna 2006 og 2007, dró úr fjölda auglýsinga um laus störf á Starfatorgi (starfatorg.is) árið 2008.

Fjöldi auglýsinga hélst mikill á fyrri hluta ársins 2008, en á síðari hluta ársins tók auglýsingum hins vegar að fækka umtalsvert, sérstaklega á fjórða ársfjórðungi. Á fjórða ársfjórðungi árið 2006 voru 380 auglýsingar birtar, en þær námu um 440 á sama tíma árið 2007. Á fjórða ársfjórðungi 2008 voru hins vegar aðeins 180 auglýsar birtar á Starfatorgi og á fyrsta ársfjórðungi 2009 var fjöldinn aftur um 180.

Ljóst er að áhrifa samdráttar í efnahagslífinu gætir í fækkun auglýsinga á Starfatorginu og er líklegt að minni starfsmannavelta hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins búi þar að baki. Ekki er hægt að leggja að jöfnu fjölda auglýsinga og fjölda auglýstra starfa þar sem oft hendir að mörg stöðugildi eru auglýst með einni auglýsingu á Starfatorgi. Á meðfylgjandi mynd má sjá fjölda auglýsinga á Starfatorgi umrædd ár.

Auglýsingar á Starfatorgi 2006-2009

Vefurinn Starfatorg.is hefur verið starfræktur síðan í mars 2002. Markmiðið með vefnum er að auðvelda áhugasömum að skoða á einum stað hvaða störf eru í boði hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins, afla sér upplýsinga um störfin og þau réttindi og skyldur er þeim fylgja og senda inn umsóknir til viðkomandi ráðuneytis eða stofnunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum