Hoppa yfir valmynd
16. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Eyrnamerktir skattar

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 12. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Eyrnamerktir eða markaðir skattar eru þeir skattar og þau gjöld nefnd sem er fyrirfram ráðstafað í lögum til tiltekinna samtaka eða til þjóðhagslega mikilvægra verkefna og eru oftar en ekki lagðir á vörur og þjónustu innan viðkomandi sviða þjóðfélagsins.

Dæmi um slíka skattlagningu eru sérstakt vörugjald á eldsneyti sem rennur til vegagerðar, höfundaréttargjald á diskum og upptökutækjum sem rennur til samtaka höfundaréttarfélaga og búnaðargjald á veltu búvara sem rennur til samtaka og sjóða sem tengjast landbúnaði.

Almennt er ekki gert ráð fyrir því að skattlagning af þessu tagi og ráðstöfun teknanna sé tekin til skoðunar reglulega líkt og þegar um framlög á fjárlögum er að ræða, en þó má benda á að þegar kostnaður sem gjaldi er ætlað að standa undir er skýrt afmarkaður í lögum hefur verið tilhneiging til að láta gjaldtökuna fylgja kostnaðinum eins og kostur er. Dæmi um það er úrvinnslugjald sem stendur undir kostnaði við söfnun, flokkun og endurnotkun úrgangs, en í lögum er gert ráð fyrir að gjaldið sé endurskoðað með hliðsjón af kostnaði við úrvinnsluna.

Í skýrslu starfshóps á vegum fjármálaráðherra, Heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis (PDF 1,08 MB), frá maí 2008, segir að helstu rökin fyrir eyrnamerkingu skatta séu þau að gera sambandið milli þess sem greiðir og nýtur augljóst, auk þess sem eyrnamerking tryggi tiltekið framlag til viðkomandi verkefnis og geri það stöðugra.

Það sem mæli gegn eyrnamerkingu sé að það er talin góð lýðræðisleg stjórnsýsla að allar skatttekjur séu settar í einn pott og löggjafinn ákveði síðan öll útgjöld með tilliti til þeirra málefna sem talin eru mikilvægust á hverjum tíma, eyrnamerking endurspegli stundum gamlar áherslur og dragi úr möguleikum á því að taka tillit til nýrra aðstæðna. Eyrnamerking komi í veg fyrir reglubundna endurskoðun á nauðsyn tiltekinna útgjalda og í sumum tilfellum geti gjaldstofn sem eyrnamerktar tekjur byggjast á rýrnað miðað við útgjaldatilefni og orðið til þess að viðkomandi málefni sé ekki sinnt nægilega vel. Á síðustu árum hefur dregið úr því að skattstofnar séu eyrnamerktir, einkum vegna þess að það er talið draga úr sveigjanleika í fjárveitingum og hefur fremur verið horft til þess að tryggja framlög til mikilvægra verkefna í fjárlögum hvers árs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum