Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukning atvinnuleysis

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 12. febúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Atvinnuleysi hefur aukist mjög mikið á undanförnum mánuðum og eru ekki miklar líkur til þess að það gangi til baka á næstu misserum.

Á það hefur verið bent að talning atvinnulausra er ekki einfalt mál. Nýjar reglur um bótarétt hafa orðið til þess að tæplega fimmtungur þeirra sem rétt eiga á bótum er ekki atvinnulaus heldur býr við skert starfshlutfall. Það var áður óþekkt nema í fiskvinnslu þegar skortur var á hráefni.

Atvinnuleysishlutfall er mæling á raunverulega tapaðri vinnu sem hlutfall af því mögulega vinnumagni sem boðið er fram. Þá stærð er hins vegar alls ekki einfalt að meta og hún er ekki mæld heldur er byggt á áætlun sem ekki er endurskoðuð eftir að Vinnumálastofnun hefur gefið út skýrslu um atvinnuástand fyrir hvern mánuð.

Hinn öri vöxtur atvinnuleysis hefur vakið mikla eftirtekt og er án fordæma bæði hvað varðar fjölgun þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá og hlutfall atvinnulausra. Atvinnuleysi hefur þó vaxið mjög ört áður.

Skráð atvinnuleysishlutfall

Á efri myndinni má sjá hvernig hlutfallslegt atvinnuleysi óx seinni hluta ársins 1993 til janúar 1994. Þá hafði það verið rúmlega 3% um skeið en óx svo mjög hratt og náði hámarki í janúar þegar það var 7,5% af áætluðu vinnuafli. Í október 1993 var atvinnuleysið næstum því það sama og í nóvember í fyrra. Í nóvember 1993 var það hið sama og í desember í fyrra. Atvinnuleysi í janúar í ár var 0,3% hærra en það var í desember fyrir 15 árum. Þá fór atvinnuleysi hratt minnkandi eftir að janúartoppnum var náð. Nú reikna allir með því að atvinnuleysi muni halda áfram að aukast. Það er hins vegar ekki án fordæma að það vaxi jafn hratt og það hefur gert hingað til í þessari niðursveiflu.

Á myndinni hér fyrir neðan er gerð tilraun til þess að meta hlutfallslegt atvinnuleysi eftir aldursflokkum og hvað það hefur aukist mikið að undanförnu. Byggt er á upplýsingum Hagstofu um mannfjölda eftir aldri 1. desember síðastliðinn og atvinnuþátttöku eftir aldri úr vinnumarkaðskönnunum. Þær tölur eru síðan notaðar til að skipta vinnuaflsframboði eftir aldri. Á það hefur verið bent að atvinnuleysi hefur aukist mest hjá yngstu aldursflokkunum. Það hefur til að mynda meira en sexfaldast frá því í september hjá þeim sem eru innan við tvítugt en telst þó vera innan við 4% af framboði. Það stafar af því að atvinnuþátttaka þeirra sem yngri eru en 25 ára telst næstum því jafn mikil og hjá þeim sem eldri eru. Sú þátttaka er væntanlega annars vegar sumarvinna og hins vegar hlutastörf með námi enda eru yfir 80% 15-19 ára í skólum og um helmingur 20-24 ára. Aukavinna nemenda hefur væntanlega dregist mjög saman.

Hlutfallslegt atvinnuleysi telst nú mest í hópi 20-24 ára, yfir 11% og þar hefur atvinnulausum fjölgað nær fimmfalt frá því í september. Í aldurshópum þeirra sem eru eldri en 25 ára og allt að sextugu hefur orðið fjórföldun. Minnst hefur aukningin orðið hjá þeim þátttakendum á vinnumarkaði sem eldri eru en sextugir. Miðað við þessa útreikninga er atvinnuleysi í janúar lægra en meðaltalið hjá öllum aldursflokkum eldri en 35 ára og lægst hjá þeim sem eru að nálgast sjötugt.

Hlutfallslegt atvinnuleysi eftir aldri



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum