Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á lögaðila 2008

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nú liggur fyrir álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2007.

Álagður tekjuskattur er 47,8 ma.kr., en það er meira en nokkru sinni áður og um 5 ma.kr. meira en í fyrra. Tryggingargjaldið er rúmir 40 ma.kr. og heildarálagning opinberra gjalda á lögaðila nemur 90 ma.kr.

Rúmlega 24 þúsund lögaðilum ber að greiða opinber gjöld í ár. Þar af fengu liðlega 16 þúsund aðilar álagðan tekjuskatt og þeim fjölgaði um liðlega eitt þúsund frá í fyrra.

Fjöldi lögaðila 2001-2008Einkahlutafélög í landinu eru nú um 29.200 talsins en önnur skattskyld félög, hlutafélög og sameignarfélög, eru um 3.600. Einkahlutafélögunum hefur fjölgað mjög undanfarin ár og á sl. ári bættust við tæplega 2.700 einkahlutafélög. Einstaklingum með reiknað endurgjald vegna eigin atvinnurekstrar hefur að sama skapi fækkað ár frá ári sl. áratug, alls um þriðjung frá árinu 1998. Einkahlutafélögin eru nú um 90% skattskyldra félaga á skattgrunnskrá.

Opinber gjöld lögaðila í álagningu 2001-2008

Hér er um frumálagningu opinberra gjalda að ræða og hún mun að vanda taka breytingum eftir því sem kærumál í kjölfar hennar verða afgreidd. Þessi mikli álagði tekjuskattur í ár, sem endurspeglar góðan hagnað fyrirtækja á árinu 2007, mun væntanlega skila sér að minna leyti í endanlegri innheimtu en hann hefur gert undanfarin ár.

Fall stóru viðskiptabankanna þriggja og þeir erfiðleikar sem brostið hafa á í efnahagsmálum munu gera mörgum fyrirtækjum erfitt að mæta skuldbindingum sínum og fyrirsjáanlegt að þeir muni einnig setja mark sitt á innheimtu þessa skatts. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2009 kemur fram að endurskoðuð áætlun um tekjuskatt lögðila á árinu 2008 er 34 ma.kr. Vinna við fjáraukalög ársins stendur nú yfir með frekari endurskoðun á horfum um þennan skatt eins og aðrar skatttekjur ríkissjóðs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum