Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Undirritun upplýsingaskiptasamninga við Guernsey og Jersey

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 30. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Undirritaðir hafa verið samningar milli Íslands og eyjanna Guernsey og Jersey á Ermarsundi um upplýsingaskipti á sviði skattamála.

Auk samninga um upplýsingaskipti voru undirritaðir þrír samningar sem taka til afmarkaðra tekna; samningur um að komast hjá tvöfaldri skattlagningu á tekjur einstaklinga, samningur um skattlagningu tekna af rekstri skipa og flugvéla og samningur um aðferðir við ákvörðun hagnaðar tengdra fyrirtækja.

Á sama tíma undirrituðu öll Norðurlöndin auk Færeyja og Grænlands, samskonar tvíhliða samninga. Samsvarandi samningar voru undirritaðir fyrir ári síðan við eyjuna Mön. Samningarnir eru afrakstur samvinnu landanna og nýtur verkefnið fjárhagsstuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni. Tilgangur verkefnisins er að ná samningum við þau lögsagnarumdæmi sem hafa, með sérstöku samkomulagi við OECD, skuldbundið sig til að mæta kröfum stofnunarinnar um gegnsæi og upplýsingaskipti á sviði skattamála. Eftir undirritun fyrrgreindra samninga teljast þessi lögsagnarumdæmi hafa staðið við umræddar skuldbindingar og teljast því ekki skattaskjól (e. tax haven) samkvæmt skilningi OECD. Í næstu samningalotu Norðurlandanna er stefnt að gerð sambærilegra samninga við Arúba, Bermúda og Hollensku Antillaeyjar.

Upplýsingaskiptasamningarnir við Guernsey og Jersey munu gera skattyfirvöldum kleift að óska eftir upplýsingum um skattskyldar tekjur einstakra íslenskra aðila á eyjunum í samræmi við tekjuskattslög. Ekki er um sjálfvirka upplýsingagjöf að ræða heldur munu upplýsingaskipti fara fram eftir nánar tilgreindri beiðni frá skattyfirvöldum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum