Hoppa yfir valmynd
20. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skuldir heimilanna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Skuldir heimilanna hafa verið mjög í sviðsljósinu að undanförnu í tengslum við gengisfall krónunnar, hækkandi verðbólgu og verri horfur varðandi tekju- og atvinnustig.

Eðlilegt er að vaxandi greiðslubyrði valdi áhyggjum og rýri lífskjör. Í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum er staða heimilanna misjöfn. Í þessari grein verður reynt að gera nokkra heildarmynd af stöðunni.

Hjá Seðlabanka Íslands kemur fram að skuldir heimilanna við lánakerfið, þ.e. banka, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði, LÍN, tryggingarfélög hafi numið 1.551 ma.kr. um síðustu áramót. Ráðstöfunartekjur heimilanna námu rétt rúmum 700 ma.kr. Því var skuldin rúmlega tvöfaldar ráðstöfunartekjur ársins. Á miðju yfirstandandi ári voru þessar skuldir orðnar 1.760 ma. kr og höfðu vaxið um 13,5% á árinu. Skuldir við Íbúðalánasjóð eru vegna íbúðakaupa og mestur hluti lána við lífeyrissjóði. Af skuldum við bankana teljast 60% vera vegna íbúðakaupa meðan lán LÍN og skuldir við tryggingarfélög eru vegna annars.

Einungis er vitað um samsetningu skulda við bankana, en þær voru 967 ma. kr á miðju ári. Af þeim voru 626 ma.kr. eða 65% verðtryggðar skuldir meðan 210 ma.kr., 22% voru gengistryggð lán. Yfirdráttarlán heimilanna námu 81 ma.kr., óverðtryggð lán 28 ma.kr. og eignarleigusamningar 21 milljarði.

Í skattframtölum landsmanna voru taldar fram skuldir að upphæð 1.348 ma.kr. um síðastliðin áramót. Þetta er 13% lægri upphæð en tölur Seðlabanka benda til. Sá mismunur kann að eiga sér ýmsar skýringar, m.a. í flokkun lána hjá bankanum, en einnig kann að vera að einstaklingar sem ekki eru að leita eftir vaxtabótum telji ekki fram skuldir sínar að fullu. Þá má ekki gleyma þeim hópi landsmanna sem ekki telja fram. Skuldir vegna íbúðarkaupa töldust vera 840,5 milljarðar meðan verðmæti framtalinna fasteigna taldist nær 2.400 milljarðar. Tæplega 97 þúsund fjölskyldur telja fram fasteignir og af þeim telur ¼ ekki fram neinar skuldir. Hins vegar voru skuldir vegna íbúðakaupa yfir 80% af verðmæti hjá um fjórðungi þeirra sem þá eru eftir, alls 17.500 fjölskyldum og samtals töldust skuldir þess hóps vegna íbúðakaupa um 300 ma.kr. um síðustu áramót en heildarskuldir 357 milljarðar. Eins og eðlilegt hlýtur að teljast er aðallega um að ræða yngra fólk, en meðalaldurinn í þessum hópi er tæplega 40 ár, sem er um tíu árum undir meðalaldri allra með íbúðalán. Þótt þessi hópur sé líklega viðkvæmari fyrir þeim áföllum sem nú dynja yfir, er greiðslugeta þeirra af lánum enn fyrir hendi. Þá er atvinnuleysi enn hlutfallslega lítið þótt það sé tekið að aukast.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum