Hoppa yfir valmynd
17. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans var nýlega haldinn í Washington D.C.

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC), sem skipuð er fjármálaráðherrum og/eða seðlabankastjórum 24 kjördæma hinna 184 aðildarlanda, fundaði þann 11. október sl.. Framkvæmdastjórar helstu alþjóðastofnana og æðstu embættismenn sjóðsins tóku þátt í umræðum á fundinum þar sem fjallað var um stöðu og horfur í efnahagsmálum (PDF 6,53 MB) og fjármálum (PDF 5,34 MB) aðildarríkjanna.

Á fundinum var fjallað um það að hagkerfi heimsins væru á leið inn í efnahagslægð í kjölfar stærsta áfalls á fjármálamörkuðum frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Sú þróun er talin ógna fjármálastöðugleika í heiminum. Frá árinu 2006 hefur hagkerfi heimsins einnig verið að takast á við annað áfall sem er mikil hækkun á verði olíu og hrávöru. Sú þróun hefur þó gengið til baka að undanförnu.

Megin vandinn í hinu alþjóðlega efnahagslífi nú er að framboð á lánsfé hefur stórlega dregist saman frá miðju ári 2007. Óvarlegar lánveitingar til fasteignakaupenda og lækkun fasteignaverðs eru talin rót núverandi erfiðleika á bandarískum fjármálamarkaði. Mikil útlánatöp og gjaldþrot bankastofnana í Bandaríkjunum hafa aukið áhættufælni fjárfesta og ástandið smitast til annarra landa og valdið erfiðleikum þar. Í september og byrjun október sl. keyrði um þverbak á fjármálamörkuðum þegar stórir bankar á Vesturlöndum urðu gjaldþrota eða voru þjóðnýttir.

Í hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðins er áætlað að hægi umtalsvert á hagvexti í heiminum í ár en að hagvöxtur taki að aukast hægum skrefum á ný árið 2009. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði hófleg á spátímanum. Tekið er fram að mikil óvissa ríkir í allri spágerð og að meiri hætta en minni er talin á því að hagvöxtur verði neikvæðari en spáð er.

Niðurstaða fundarins var sú að megin áhersla stjórnvalda þarf að vera að bregðast hratt og markvisst við ástandi á fjármálamörkuðum og stuðla að jafnvægi þar. Þar sem erfiðleikar bankakerfisins eru alþjóðlegir voru stjórnvöld jafnframt hvött til að samræma slíkar aðgerðir. Til að lánastarfsemi komist í eðlilegan farveg á ný er talið mikilvægt að verðfall á fasteignum, sérstaklega í Bandaríkjunum, taki enda. Stjórnvöld voru einnig hvött til að gera hvað þau geta til að örva efnahagsstarfsemi á tímabili lítils hagvaxtar og halda verðbólgu í skefjum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum