Hoppa yfir valmynd
26. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins væntanleg

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Næstkomandi miðvikudag, 1. október, birtir fjármálaráðuneytið nýja þjóðhagsskýrslu, Þjóðarbúskapurinn – Haustskýrsla 2008.

Í skýrslunni verður fjallað um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2008-2010 á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins auk framreikninga til ársins 2013. Auk þess verða birtar niðurstöður margvíslegra rannsókna á sviði þjóðhags- og tekjuspágerðar.

Undanfarin ár hafa þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins, eins og annarra aðila, vanmetið kraft uppsveiflunnar. Þar sem spár um tekjur ríkissjóðs eru byggðar á þjóðhagsspá ráðuneytisins hefur sama tilhneiging komið fram hvað þær varðar. Í skýrslunni verða birtar rannsóknir á orsökum spáfrávika í helstu þjóðhagsstærðum, bæði frávik í haggögnum og ólíka eiginleika reiknilíkana við spágerð. Samanburður á ICEMOD og QMM líkönum varpar ljósi á þætti sem stýra ólíkum spániðurstöðum. Rannsóknarvinnan miðar einnig að því að bæta þekkingu á mikilvægum atriðum er lúta að fjármálastjórn ríkissjóðs.

Meðal hagfræðilegra og tölfræðilegra rannsókna á sviði ríkisfjármála undanfarin ár sem gerð verður grein fyrir í skýrslunni má nefna

  • mat á teygnistikum einstakra skattstofna og skatttekna ríkissjóðs í heild
  • gerð spálíkana fyrir skatttekjur
  • mælingar á kerfislægum tekjujöfnuði ríkissjóðs og
  • mat á árangri í sveiflujöfnun ríkissjóðs Íslands í samanburði við ríkissjóði annarra OECD ríkja.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum