Hoppa yfir valmynd
30. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Virðisaukaskattur í viðskiptum yfir landamæri

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 29. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Frá árinu 2006 hefur vinnuhópur á vegum OECD (Working Party No. 9 on Consumption Taxes) unnið að gerð alþjóðlegra leiðbeinandi reglna fyrir stjórnvöld um meðferð virðisaukaskatts við sölu á vöru og þjónustu yfir landamæri (International VAT/GST Guidelines).

Til að byrja með snýr sú vinna fyrst og fremst að sölu á þjónustu yfir landamæri. Tilgangurinn með þessari vinnu er að samræma reglur sem flestra ríkja um hvernig staðið skuli að skattlagningu á viðskiptum yfir landamæri með það fyrir augum að koma í veg fyrir tvískattlagningu, undankomu skattlagningar sem og til hagræðis og einföldunar fyrir fyrirtæki og einstaklinga í viðskiptum sín á milli.

Talsvert ósamræmi er í dag í löggjöf aðildarríkja OECD um hvar og hvernig leggja eigi virðisaukaskatt á í viðskiptum yfir landamæri, þ.e. hvort það sé í umdæmi seljanda, kaupanda eða þar sem kaupin eiga sér stað. Slík vandamál koma til að mynda oft upp við kaup á vöru og þjónustu með rafrænum hætti í gegnum internetið. Með samræmdum alþjóðlegum reglum á þessu sviði er ætlunin að sjá til þess að sem flest ríki beiti samskonar aðferðum við álagningu virðisaukaskatts í viðskiptum yfir landamæri. Í vinnuhópi OECD hefur þegar verið samþykkt sú meginregla að leggja beri virðisaukaskatt á sölu á þjónustu yfir landamæri í því umdæmi þar sem kaupandinn er staðsettur (customer location rule).

Frá þeirri meginreglu kunna hins vegar að vera undanþágur sem nánar þarf að útfæra. Evrópusambandið hefur boðað að gerðar verði breytingar á s.k. virðisaukaskattstilskipun þess (VAT Directive), frá og með 2010, í þá veru að samskonar meginregla verði tekin upp fyrir aðildarríki Evrópusambandsins í viðskiptum yfir landamæri. Fyrirhugað er að gengið verði frá umræddum leiðbeinandi reglum OECD innan tveggja ára.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum